Fyrrum eiginkona Davíðs Viðarssonar, sem áður var nefndur Quang Le, er ein sexmenninga sem handteknir hafa verið í tengslum við rannsókn þar sem grunur leikur á mansali, peningaþvætti og skipulagðri brotastarfsemi.
Níu sakborningar eru í málinu og eru átta þeirra af víetnömskum uppruna og einn Íslendingur sem er fyrrverandi eigandi veitingastaða Wok on. Á vef RÚV segir að auk Davíðs séu einnig bróðir hans, mágkona og bókari í haldi.
Fyrrverandi eiginkonan er sögð tengd starfseminni en hún og Davíð eiga saman fasteign í Miðtúni í Reykjavík. Þá fasteign keyptu þau Davíð árið 2022 og er hún skráð fyrir rétt tæplega 50% hlut í eigninni en Davíð fyrir rétt rúmlega 50% hlut í eigninni.
Í eigninni eru skráðir 15 íbúar og eru þeir allir af víetnömskum uppruna að því er fram kemur hjá Þjóðskrá. Þar af eru þrjú börn.
Fyrrverandi eiginkonan er einnig skráð fyrir tæplega þriðjungshlut í Reykjavík Mathöll ehf. ásamt tveimur bræðrum sem ítrekað hafa komist í kast við lögin.
Starfsemi Reykjavíkur mathallar má rekja til ársins 2021 þegar tilkynnt var um að til stæði að opna mathöll í húsnæðinu sem áður hýsti Kaffi Reykjavík við Vesturgötu 2. Húsnæðið er í eigu Fjélagsins - eignarhaldsfélag hf.
Að sögn nágranna höfðu framkvæmdir staðið þar yfir um allnokkurt skeið en þeim var svo skyndilega hætt. Innanhúss hafa ekki sést iðnaðarmenn í nokkra mánuði.
Hins vegar var að sögn nágranna klárað að gera sólpall fyrir utan Kaffi Reykjavík fyrir nokkrum vikum.
Innanstokks er engu líkara en hætt hafi verið í miðjum klíðum. Hvarvetna má sjá iðnaðarefni og tæki sem ætla mætti að geti nýst við framkvæmdir innanhúss.
Uppfært kl. 22:43:
Lögmaður Fjelagsins eignarhaldsfélags ehf. vill árétta að félagið hafi engin tengsl við þá einstaklinga sem fréttin snýst um og sagðir eru sæta gæsluvarðhaldi. „Þá þekkir það ekkert til félagsins Reykjavík Mathöll ehf. eða eigenda þess félags og þekkir ekki til þess að Reykjavík Mathöll ehf. hafi á nokkurn hátt komið að leigu eða framkvæmdum á Vesturgötu 2. Hið rétta er að leigusamningi um eignina sem var við Vietnamese Cuisine ehf., sem Davíð Viðarsson hefur verið í forsvari fyrir, var rift 7. mars s.l. vegna vanefnda.“