Tómas G. Gíslason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, segir það alveg öruggt að heilbrigðiseftirlitið bregðist við með viðeigandi hætti í aðstæðum sem metnar eru hættulegar eða heilsuspillandi almenningi.
Blaðamaður ræddi við Tómas og Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóra matvælaeftirlits hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, um eftirlit og heimildir heilbrigðiseftirlitsins.
Tildrög viðtalsins er sú umræða sem skapast hefur í kringum aðgerðir lögreglu frá því á þriðjudaginn í síðustu viku þegar lögreglan gerði húsleit á veitingastöðum og gistiheimilum í eigu Davíðs Viðarssonar, áður Quang Le.
Um er að ræða aðgerðir sem tengja má við fordæmalausar aðgerðir matvælaeftirlitsins frá því í lok september í fyrra þegar matvælaeftirlit heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur lagði hald á nokkur tonn af matvælum sem geymd voru við óheilnæmar aðstæður á matvælalager í Sóltúni 20, en umræddur matvælalager var í eigu Davíðs, sem jafnframt er eigandi Wok on og Pho Vietnamese.
Hvað matvælalagerinn í Sóltúni varðar segja Tómas og Óskar að honum hafi verið lokað og ljóst að nýr matvælalager sé ekki í uppbyggingu þar.
Aðspurður segir Óskar að heilbrigðiseftirlitið hafi farið í eftirlit á þá staði sem taldir voru tengjast eiganda matvælalagersins. Bæði á þessu ári og strax í kjölfar aðgerða matvælaeftirlitsins.
Hefur ykkur tekist að sanna að matvælin sem fundust í kjallaranum hafi verið notuð til matreiðslu á þessum veitingastöðum?
„Okkur hefur ekki tekist að sanna það. Við fundum ekki nein matvæli, á neinum veitingastöðum, sem voru með nákvæmleg sama lotunúmeri þannig að við gátum ekki tengt það beint við lagerinn.“
Óskar útskýrir að heilbrigðiseftirlitið hér á landi hafi ekki einungis eftirlit með veitingastöðum, heldur jafnframt skólum, rakarastofum, verslunum, gististöðum og annarri leyfisskyldri starfsemi. Um sé að ræða eftirlit sem ekki er þekkt annars staðar.
„Okkar kerfi gengur í raun og veru lengra en flest önnur kerfi að því leyti að þetta er ekki bara matvælafyrirtæki þetta er hollustuhátta- og mengunarfyrirtæki líka,“ útskýrir Tómas.
Spurðir hvort heilbrigðiseftirlitinu skorti heimildir til að bregðast við þegar niðurstaða eftirlits er með þeim hætti að veitingastaður uppfyllir ekki kröfur heilbrigðiseftirlitsins, svarar Tómas því til að heilbrigðiseftirlitinu skorti ekki heimildir, en það þurfi að sjálfsögðu að fylgja stjórnsýslulögum hvað varðar meðalhóf og andmælarétt.
Þá útskýrir Óskar að sá heilbrigðisfulltrúi sem sinnir eftirliti á hverjum stað meti heildareinkunn í lok heimsóknarinnar út frá þeim frávikum sem um ræðir hverju sinni.
„Komi í ljós eitthvað sem að varðar alvarlegt brot, til að mynda á matvælalöggjöfinni, þá vísum við raunverulega fyrst til ábyrgðar stjórnendanna sem bera ábyrgð á starfseminni. Samkvæmt matvælalöggjöfinni ber þeim að grípa til aðgerða,“ segir Óskar.
Spurður hvað stjórnendur fá langan tíma til að grípa til aðgerða komi í ljós brot gegn matvælalöggjöfinni svarar Óskar því til að ef brotið varði öryggi almennings þá sé tafarlaust gripið til aðgerða.
„Þá er viðkomandi aðila bent á skyldur sínar sem slíkar eða upplýstur um þær,“ segir Óskar og útskýrir að viðkomandi aðili geti ekki hafið starfsemi sína á ný fyrr en heilbrigðiseftirlitið hefur farið á staðinn aftur.
„Ef það er búið að bæta úr þessum bráðustu frávikum, sem eru alvarlegust, þá fær viðkomandi að hefja starfsemina á ný.“
Hvaða frávik eru það sem gæti átt eftir að bæta úr?
„Það getur verið ýmislegt,“ segir Óskar og nefnir sem dæmi að viðkomandi fyrirtæki gæti átt eftir að þrífa háf betur eða bæta aðstöðu starfsmanna.
„Það er fjöldi atriða sem er ekki metinn þannig að þau varði ekki hættu almennings.“
Að undanförnu hefur umræða skapast um þann tíma sem líður frá því heilbrigðiseftirlitið fer í eftirlit og þar til upplýsingar um niðurstöðu eftirlitsins liggja fyrir og eru aðgengilegar almenningi.
Sem dæmi útskýrir Tómas í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í dag að það taki mislangan tíma að ganga frá hverri skýrslu. Segir hann það fara eftir umfangi fyrirtækisins og skýrslunnar, auk þess sem fyrirtækin fá fjórtán daga andmælarétt samkvæmt lögum til að gera athugasemdir við skýrsluna.
Spurður hvort almenningur megi treysta því að vera látinn vita ef hætta stafar af starfsemi svarar Óskar:
„Við látum ekki vita til almennings ef viðkomandi staður hefur lokað sjálfur, þá erum við ekki að láta almenning vita því þá er engin hættuleg starfsemi í gangi.“
Komi upp mál þess eðlis að almenningur þurfi að vera látinn vita af því, til að mynda ef tiltekin hættuleg matvæli eru í dreifingu, getur fyrirtækið sem ber ábyrgð á gallanum tekið frumkvæði um að tilkynna um það. „Geri þeir það ekki þá gerir heilbrigðiseftirlitið það,“ segir Óskar.
Við þetta bætir Tómas: „Þú getur verið alveg viss um það að ef við komum í eftirlit og metum að eitthvað sé hættulegt að heilsuspillandi þá er brugðist við. Slíkt fær ekki að viðgangast, það er farið í aðgerðir.“
Þá snúum við okkur aftur að aðgengi bæði almennings og annara að niðurstöðum úr eftirliti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.
Ég átta mig á því að þessar upplýsingar eru væntanlega mjög aðgengilegar á vefnum ykkar, en á ég sem neytandi ekki að geta treyst því þegar ég geng inn á stað að hann standist kröfur heilbrigðiseftirlitsins án þess að þurfa að fletta staðnum upp. Þarf neytandinn ekki að sjá einkunn staðarins með skýrari hætti?
„Aftur minni ég á að okkar niðurstöður eru víðtækari heldur en niðurstöður flestra annarra þjóða, við birtum fyrir allar eftirlitsskyldar stofnanir inni á vefnum okkar,“ segir Óskar en bætir við að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sé oft að horfa til þess hvernig bæta megi kerfið.
Hvort sem það yrði gert með því að lyfta upplýsingum um niðurstöður heilbrigðiseftirlitsins ofar á vefnum eða með því að birta einkunn allra fyrirtækja sem heilbrigðiseftirlitið hefur eftirlit með við inngang þeirra eins og þekkt er víðs vegar um heim.
„Þetta eru sjónarmið sem við erum að skoða og við erum stöðugt að leita tækifæra til að gera þetta skýrara fyrir almenning,“ segir Óskar.
Spurðir hvort útlit sé fyrir breytingar þess efnis að einkunnir verði birtar við inngang fyrirtækja, líkt og tíðkast víða erlendis, svarar Óskar því til að horft hafi verið til þess en ekki sé ljóst hvort heilbrigðiseftirlitið hafi heimild til þess.
Þá segir hann mismunandi skoðanir á umræddu fyrirkomulagi í samfélaginu. „Það eru aðilar sem telja að eftirliti sé ofaukið og of mikið og myndu telja þetta íþyngjandi, en það eru ábyggilega mörg sjónarmið í þessu sem þarf að taka tillit til.“
Tómas áréttir jafnframt að um sé að ræða ákvörðun sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tekur ekki eitt.
„Við teljum núverandi kerfi líka vera bara mjög gott, ganga lengra en í nánast öllum löndum sem við þekkjum til. Allt aðgengi sem fólk hefur í gegnum vefinn teljum við vera mjög gott en það er ekki útilokað að þetta verði tekið enn þá lengra.“