Minni líkur á gosi eftir því sem lengra líður

Síðast gaus á Reykjanesskaganum 8. febrúar.
Síðast gaus á Reykjanesskaganum 8. febrúar. mbl.is/Árni Sæberg

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir að ef ekki gjósi á næstu dögum þá sé líklegt að það sé komin einhver tregða í kerfið í að hleypa kvikunni upp.

„Mín tilfinning er sú að þetta geti farið á hvorn veginn sem er, en eftir því sem lengra líður þá finnst mér minni líkur á að það gjósi. Það er komið að þolmörkum á því sem kerfið hefur haft fram að þessu og ef það fer ekki eitthvað að gerast á næstu tveimur til þremur dögum þá finnst mér draga úr líkunum á gosi,“ segir Þorvaldur við mbl.is.

Kvikan mögulega í aðra blinda sprungu

Þorvaldur segir að ef kvikan komist ekki upp þessa venjulega leið sem hún hafi farið þá sé mögulegt að hún fari inn í aðra „blinda“ sprungu eins og hún hafi gert 2. mars. Það gæti því orðið endurtekinn atburður frá þeim degi.

Síðast gaus á Reykjanesskaganum þann 8. febrúar en 2. mars voru flestir viðbúnir sjöunda gosinu á tæpum þremur árum, en þeirri atburðarás sem átti sér stað þann dag lauk með litlu kvikuhlaupi.

„Þegar kvikunni tókst ekki að brjóta sér leið upp á yfirborðið 2. mars þá fór mann að gruna að þessi aðalleið sem kvikan var að fara upp 18. desember, 8. febrúar og hugsanlega að hluta til 14. janúar, hafi fyllst í sprunguhluta sem voru opnastir,“ segir Þorvaldur við mbl.is.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. mbl.is/Arnþór

Kvikan kannski orðin stíf

Hann segir að nú séu minna opnar sprungur til staðar og kvikan í þeim sé kannski orðin það stíf að það sé erfitt að komast í gegnum hana.

Líkanreikningar Veðurstofunnar sýna að kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram á sama hraða og áður. Í fyrri atburðum hefur kvika hlaupið þegar heildarmagn kviku sem safnast hefur undir Svartsengi er á bilinu 8 til 13 milljónir rúmmetra. Heildarmagn kviku undir Svartsengi er komið yfir neðri mörkin.

„Það eru komnir rétt rúmir 10 milljónir rúmmetrar af kviku og ef hún fer mikið yfir 13 milljónir rúmmetra, sem hefur mest verið, þá myndi ég túlka það þannig að væri tregða í aðfærslukerfi sem hefur verið að hleypa kvikunni til yfirborðs,“ segir Þorvaldur.

Hann segir að á meðan kvikan sé á því hitastigsbili sem er á milli bræðslumarks og storkunarmarks þá sé hún langsterkust. 

„Ef ný kvika reynir að fara upp sömu leið þá getur þessi fyrirstaða haldið aftur af henni. Þá reynir hún að leita eitthvað annað ef það eru ekki aðrar leiðir færar þarna á Sundhnúkasvæðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert