Fyrstu ábendingar um misneytingu vinnuafls í fyrirtækjum Davíðs Viðarssonar, áður Quang Lé, bárust Alþýðusambandi Íslands fyrir rúmu ári. Ábendingarnar voru nafnlausar og virtust koma innan úr fyrirtækjunum.
„Þetta voru ábendingar um bágan aðbúnað fólksins, það væri að vinna mjög langa vinnudaga, þau væru ekki að fá laun rétt greidd, svo kom jafnframt fram í einum skilaboðunum að fólk væri látið greiða til baka til atvinnurekandans hluta af laununum sínum,“ segir Saga Kjartansdóttir, verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits ASÍ.
Fulltrúar á vegum ASÍ heimsóttu í kjölfarið vinnustaðina ásamt túlk þar sem grunur þeirra var að hluta staðfestur. Starfsfólk var þó ekki reiðubúið að leysa alveg frá skjóðunni og héldu margir sér til hlés fyrst um sinn.
Saga segir ASÍ hafa miðlað þeim upplýsingum sem það fékk í heimsóknunum til lögreglu.
„Það getur vel verið að lögregla hafi verið búin að fá ábendingar líka. En við töldum þetta vera trúverðugar ábendingar og við töldum að það ætti að skoða þetta sem hugsanlegt mansalsmál.“
ASÍ hélt úti reglubundnu eftirliti á vinnustöðunum síðasta ár með víetnamskan túlk með í för, voru veitingastaðir á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri, Hveragerði og í Vík heimsóttir. Auk starfsfólks verslana, gisti- og veitingastaða hittu fulltrúar einnig fyrir starfsfólk sem sá um ræstingar fyrir fyrirtæki Davíðs. „Við gáfum okkur góðan tíma í heimsóknunum. Við sáum það fljótt að fólk var ekki að fara að segja okkur allt en við ákváðum samt að það væri þess virði að fara með túlk og reyna að vinna traust þeirra, fá smá upplýsingar og vera sýnileg.“
Þegar leið á árið fóru fulltrúar ASÍ að funda með fleirum sem áttu aðkomu að málinu, m.a. lögreglu, Bjarkarhlíð og Vinnumálastofnun.
„Það eru haldnir reglulegir samráðsfundir um þetta mál. Við sáum að lögregla ætlaði að taka þetta alvarlega þannig að við héldum áfram að heimsækja staðina og miðla upplýsingum til lögreglu. […] Við vorum með vissu um að fólkinu yrði hjálpað, af því að við viljum ekki sem verkalýðshreyfing fara að blanda okkur í einhver mál ef það skilar síðan verri stöðu heldur en það var í áður. Við vorum með fullvissu í þessu máli um að allir væru að nálgast þetta á sama hátt.“
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.