„Vagnarnir eru frábær viðbót við flota Strætó og ánægjulegt að sjá þá fara af stað,“ segir Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, um nýja rafvagna sem teknir voru í notkun í dag. Um er að ræða níu nýja strætisvagna sem keyptir voru frá Kína eins og eldri rafvagnar Strætó sem sagðir eru hafa reynst vel.
Í tilkynningu frá Strætó kemur fram að vagnarnir séu góð viðbót við flota Strætó og í samræmi við stefnu Strætó um kolefnislausan flota árið 2030. „Með þessum nýju rafvögnum eru nú rúmlega 30% af flota Strætó kolefnislaus sem er gott fyrir umhverfið og stefnir Strætó á að auka enn frekar við umhverfisvæna kosti á næstu árum,“ er haft eftir Jóhannesi.
Vagnarnir munu aka leiðir 8, 22, 23 og 31 og fyrir leið 22 í Garðabæ þýðir þetta betra aðgengi þar sem rafvagnarnir eru stærri og notendavænni en þeir sem óku leiðina áður. Settar hafa verið upp hleðslustöðvar bæði upp á Hesthálsi 14 og í Ásgarði í Garðabæ og eru vagnarnir hlaðnir í lok eða á milli aksturs.