Ástæða til að skoða afturköllun á alþjóðlegri vernd

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir mál mannsins sem réðst á tvo starfs­menn versl­un­ar­inn­ar Ok Mar­ket með hníf sýna að breytingar séu nauðsynlegar.

Ekki er hægt að vísa manninum úr landi segir Guðrún en hún lítur til Norðurlanda þar sem ákvæði eru til staðar um afturköllun á alþjóðlegri vernd. 

„Samkvæmt gildandi lögum og meginreglum þjóðarréttar þá megum við ekki senda fólk til baka sem hefur fengið vernd hérna á íslandi ef lífi þess er ógnað í heimaríkinu,“ segir hún og bætir við að hægt sé að afturkalla alþjóðlega vernd ef þær aðstæður sem liggja að baki verndarinnar breytast.

Langur brotaferill mannsins

Maðurinn kom til landsins árið 2018 frá Sýrlandi með alþjóðlega vernd. Hann er nú í gæsluvarðhaldi vegna stunguárásar í verslun OK Market og segir eigandi verslunarinnar manninn hafa hótað sér í sex ár fram að árásinni. 

Maðurinn hefur staðið í hótunum við fleiri einstaklinga síðan hann kom hingað til lands. Meðal þeirra er Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.

Sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is hef­ur maður­inn áður verið dæmd­ur í fang­elsi hér á landi fyr­ir skjalafals og verið sak­felld­ur fyr­ir fjöl­mörg brot, þar á meðal vald­stjórn­ar­brot, brot gegn nálg­un­ar­banni, lík­ams­árás, hús­brot og brot gegn sótt­varna­lög­um.

Hægt að afturkalla alþjóðlega vernd á Norðurlöndunum 

Eftir því sem Guðrún kemst næst þá eru ákvæði til staðar á Norðurlöndunum sem heimila afturköllun verndar ef flóttamaður hefur gerst sekur um alvarlegan glæp eða hann ógnar þjóðaröryggi í landinu. 

Spurð hvort þetta sé eitthvað sem hún myndi vilja líta til hér á landi segir hún svo vera. 

„Ég er búin að vera mjög skýr í mínum störfum. Ég vil færa okkar löggjöf nær löggjöf Norðurlandanna og ef þau eru með þetta ákvæði tel ég algjörlega tilefni til að skoða það betur.“

Þá ítrekar hún að Norðurlöndin, alveg eins og Ísland, eru bundin af meginreglum þjóðarréttar, sem þá trompa þetta ákvæði. 

Þarf að tryggja að fólk aðlagist íslensku samfélagi

Guðrún segir sjálfsagt að samfélagið geri þá kröfu að þeir sem búa hér á landi eða dvelja hér á landi fari eftir íslenskum lögum. 

„Þá skiptir ekki máli hvort það séu íslendingar eða aðrir sem hingað koma. Það er frumskylda mín sem ráðherra og frumskylda þar með stjórnvalda að tryggja öryggi borgara í þessu landi.“

Sjálf hefur hún ekki átt samtal við lögregluna um málið.

Hún segir mikilvægt að horfa til þess hvernig tekið er á móti þeim sem fá vernd hér á landi og hvernig sé hægt að tryggja það að þeir einstaklingar sem koma hingað aðlagist íslensku samfélagi og læri íslensku. 

„Það er ljóst að við þurfum að gera betur hvað það varðar,“ segir hún að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka