Skora á stjórnvöld að koma upp broskarlakerfi

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Broskarlakerfi við inngang veitingahúsa, sem er til marks um niðurstöður heilbrigðiseftirlitsins úr eftirliti, er bæði til þess fallið að veitingahús geri hvað þau geta til að halda gróðri einkunn auk þess sem það ýtir á að heilbrigðiseftirlitið hafi raunverulegt eftirlit. 

Þetta segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við mbl.is, en stjórn Neytendasamtakanna samþykkti ályktun á fundi sínum í gær þar sem skorað er á viðeigandi stjórnvöld að gera niðurstöður eftirlits sýnilegar neytendum við inngang veitingahúsa. 

Ályktun stjórnarinnar er svohljóðandi:

„Stjórn Neytendasamtakanna skorar á viðeigandi stjórnvöld að niðurstöður eftirlits með veitingahúsum verði gerðar neytendum sýnilegar við inngang líkt og gert er í nágranna löndum okkar, til dæmis með broskarla kerfi. Neytendur eiga að geta tekið upplýsta ákvörðun um matinn sinn og matvælaöryggi.“ 

Tóku upp broskarlakerfið um aldamótin

Ályktunin kemur í kjölfar þeirrar umræðu sem skapast hefur á undanförnum dögum um eftirlit og upplýsingar frá heilbrigðiseftirlitinu. Má þar nefna gagnrýni Krónunnar á að hafa ekki fengið til sín skýrslu heilbrigðiseftirlitsins um lága einkunn þeirra þriggja Wok On staða sem starfræktir voru í rekstrareiningu Krónunnar. 

Að sögn Breka hafa neytendasamtökin síðasta áratuginn reynt að vekja athygli stjórnvalda og heilbrigðisyfirvalda á broskarlakerfi Dana sem þeir tóku upp um aldamótin. Um er að ræða kerfi sem miðar að því að upplýsa neytendur um það hvernig viðkomandi staður stendur sig í tengslum við hreinlæti og annað það sem heilbrigðiseftirlitið metur. 

Þannig er veitingahús sem merkt er með brosandi broskarli að standa sig vel, en veitingahús með fýldum broskarli að standa sig illa. Í Danmörku er síðan einn broskarl þarna á milli sem sýnir engar tilfinningar og er til marks um að staðurinn standi sig hvorki vel né illa. 

Upplýsingar sem neytandinn á rétt á

Breki segir mikilvægt að átta sig á því að um sé að ræða upplýsingar sem neytandinn á rétt á, enda rétturinn til upplýsinga ein af níu grunnkröfum neytenda. „Við getum ekki tekið upplýsta ákvörðun án upplýsinga,“ áréttir hann. 

Í þessu samhengi segir Breki það góðra gjalda vert hversu vel niðurstöður heilbrigðiseftirlits eru settar upp á vef Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, en þar má sjá einkunnir veitingastaða þegar þeim er flett upp að því gefnu að búið sé að gera úttekt á staðnum. Vilji neytandinn frekari upplýsingar um einkunn staðarins þarf hann þó að óska eftir að fá skýrslu eftirlitsins senda í tölvupósti. 

„Þetta er bara ekki nóg,“ segir Breki sem vill að upplýsingarnar séu jafnframt aðgengilegar við inngang verslana. Er það einnig vegna þess að það er ákvörðun heilbrigðiseftirlits hvers umdæmis hvort niðurstöður eftirlits eru birtar á heimasíðu þess eða ekki. 

Fyrirtæki vilja auka gagnsæi

Að sögn Breka voru ekki allir veitingahúsaeigendur og rekstraraðilar í Danmörku á eitt sáttir þegar broskarlakerfið var tekið upp þar í landi. Sjö árum seinna var þó gerð könnun meðal veitingahúsaeiganda þar sem fram kom að yfirgnæfandi meirihluti væri ánægður með fyrirkomulagið, enda varð það til þess að veitingahúsaeigendur vildu standa sig vel og hinir þeir sem það ekki vildu misstu marks. 

Breki efast ekki um að hið sama myndi eiga sér stað hér á landi og kveðst vita til þess að fyrirtæki séu að leitast við að auka gagnsæi með sambærilegum hætti og Danir hafa gert.

Í því samhengi nefnir hann verslanir Krónunnar, og þau veitingarými sem starfa sem sjálfstæða einingar innan Krónunnar, sem vinna nú að því að auka gagnsæi og vilja gjarnan gera það í samstarfi við heilbrigðiseftirlitið.  

„Við fögnum því og megi aðrir rekstraraðilar verslana sem lúta eftirliti heilbrigðiseftirlita víða um land taka sér Krónunnar til fyrirmyndar.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka