Ekkert vistunarúrræði til staðar

Fangelsið á Hólmsheiði. Þar kunna konur að vera vistaðar um …
Fangelsið á Hólmsheiði. Þar kunna konur að vera vistaðar um lengra skeið þar sem fangelsin Litla-Hraun og Kvíabryggja eru einungis ætluð karlkyns föngum, bendir umboðsmaður Alþingis á í skýrslu. mbl.is/Hari

Staða kvenna í íslenskum fangelsum var tilefni fundar Guðmundar Inga Þóroddssonar, formanns Afstöðu – félags fanga, og forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, í gær en tvær skýrslur um málið komu út í fyrra, önnur á vegum umboðsmanns Alþingis og hin frá Ríkisendurskoðun.

Frá þessu greinir í fréttatilkynningu frá Afstöðu þar sem enn fremur er vitnað í skýrslu umboðsmanns þar sem fram kemur að fyrirkomulag við afplánun kvenna hérlendis sé almennt til þess fallið að gera stöðu þeirra lakari samanborið við karlfanga. Segir svo:

„Ástæðurnar má að verulegu leyti rekja til færri vistunarúrræða og þess að konur kunna að vera vistaðar í Fangelsinu Hólmsheiði um lengra skeið þar sem fangelsin að Litla-Hrauni og Kvíabryggju eru einungis ætluð körlum. Lakari staða kvenna birtist þó einnig í því að í ýmsu hefur ekki verið tekið nægilegt tillit til sérstöðu þeirra við afplánun enda ekki verið mótuð heildræn stefna um vistun kvenfanga. Þetta kemur fram í þemaskýrslu umboðsmanns um aðbúnað og aðstæður kvenna í fangelsum hér á landi.“

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu – félags fanga, fundaði með …
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu – félags fanga, fundaði með Guðna Th. Jóhannessyni forseta um fangelsi landsins og vistmenn þeirra. Var staða kvenfanga þar meðal umræðuefna. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hugmyndir ráðuneytis nái ekki alla leið

Skýrsla Ríkisendurskoðunar tekur enn dýpra í árinni og segir aðstæður kvenfanga óviðunandi. Telji stofnunin með öllu óverjandi að aðstöðumunur á grundvelli kyns sé svo mikill sem raun beri vitni og að ekkert sérstakt vistunarúrræði til staðar fyrir kvenfanga.

Tekið er sérstaklega fram að almennt sé lagt upp með fullkominn aðskilnað kynja og telji Ríkisendurskoðun að hugmyndir dómsmálaráðuneytisins um stækkun fangelsisins að Sogni frá í fyrrahaust komi ekki að fullu til móts við ábendingar umboðsmanns Alþingis um málið.

Segir Afstaða í fréttatilkynningu sinni að þrátt fyrir framangreindar skýrslur umboðsmanns og Ríkisendurskoðunar – og ítrekaðar athugasemdir Afstöðu til margra ára – hafi lítið sem ekkert breyst hvað varðar stöðu kvenfanga á Íslandi. „Á því þarf að verða breyting!“ segir svo.

Guðni Th. Jóhannesson tók á móti Guðmundi Inga Þóroddssyni á …
Guðni Th. Jóhannesson tók á móti Guðmundi Inga Þóroddssyni á Bessastöðum í gær. Ljósmynd/Skrifstofa forseta Íslands

Fjallar forsetaembættið um fund Guðmundar og Guðna í tilkynningu þar sem meðal annars segir:

„Einnig var rætt um málefni aðstandenda fanga og ekki síst um mikilvægi þess að hugað sé betur að aðbúnaði kvenna sem þurfa að afplána dóma í íslenskum fangelsum. Félagið Afstaða var stofnað á Litla-Hrauni árið 2005 og verður því 20 ára á næsta ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka