Lögreglan á Suðurlandi greindi frá því í morgun að rannsókn á eldsvoðanum í Hafnartúnshúsinu á Selfossi á laugardagskvöldið hefði leitt í ljós íkveikju.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við mbl.is að fimm ungmenni á aldrinum 14-15 ára hafi stöðu sakborninga í málinu. Sveinn segir að rætt hafi verið við flesta og að enn sé verið að rannsaka málið í samráði við barnaverndaryfirvöld.
Lögreglan á Suðurlandi naut aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og brunasérfræðings frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
Hafnartúnshúsið, sem stendur við suðurenda nýja miðbæjarins á Selfossi, er gjörónýtt eftir eldsvoðann en um gamalt timburhús var að ræða og í því var mikill eldsmatur.