Hart sótt að Heiðu á fundi SÍS

Heiða Björg Hilmisdóttir svaraði fyrirspurnum úr sal ásamt Sigurði Inga …
Heiða Björg Hilmisdóttir svaraði fyrirspurnum úr sal ásamt Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hart var sótt að Heiðu Björg Hilmisdóttur, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, á landsþingi sambandsins í dag vegna vinnubragða við ákvörðun um þátttöku SÍS í nýjum kjarasamningum þar sem samþykkt var að veita börnum fríar skólamáltíðir.   

26 fulltrúar sveitastjórna úr Sjálfstæðisflokki um allt land hafa gagnrýnt ráðahaginn og Heiða Björg sögð bera ábyrgð á því að fríar skólamáltíðir hafi komist á dagskrá. Þessi kostnaðarliður hafi óvænt komið „í fang aðþrengdra sveitarfélaga.“ Heiða hafi komið gjaldfrjáls­um máltíðum á dagskrá kjaraviðræðna þvert gegn vilja stjórnar SÍS.

Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi.
Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi.

Sjálfstæðisflokkur að afhjúpa afstöðu sína 

Í ræðu á þinginu sagði Heiða að hugmyndin hafi verið ríkisstjórnarinnar en mótmælti því að hugmyndirnar hefðu ekki verið kynntar. 

Hún segir jafnframt að ágreiningur um þetta væri í grunninn hugmyndafræðilegur og sagði að sjálfstæðismenn væru að afhjúpa þá afstöðu sína að þeir væru á móti ráðahagnum. 

Hjördís Johnson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í Kópavogi, sem talaði einnig fyrir hönd Ásdísar Kristjánsdóttur bæjarstjóra, Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ, Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi úr Kópavogi og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, báru öll fram spurningar þar sem framganga Heiðu í málinu var gagnrýnd. 

Frá fundinum í dag. Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík.
Frá fundinum í dag. Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík.

Spyr hvort loforð hafi verið gefið 

Mestur hiti myndaðist þegar Andri Steinn Hilmarsson steig í pontu og benti á að í bókun stjórnar hafi verið óskað eftir því að ríkisvaldið leitaði annarra leiða við að útfæra markmið um gjaldfrjálsar skólamáltíðir en beint í gegnum gjaldskrár sveitarfélaga.

Vilhjálmur Birgisson sagði frá því í aðdraganda kjarasamninga sem undirritaðir voru fyrir viku að að hann væri ósáttur við þessa bókun sveitarfélaganna og að hún væri ekki nægjanlega skýr. 

„Ég spyr því hvað breyttist frá því að Vilhjálmur Birgisson hótaði að skrifa ekki undir samninga og þar til hann skrifaði undir þá sama dag. Því ekki kom stjórnin kom saman og ekki breyttist bókunin. Hvað breyttist? Gáfu stjórnendur sambandsins einhverjar væntingar um að þetta yrði keyrt í gegnum sveitarfélög í landinu?“ segir Andri Steinn. 

Heiða segir að þessi bókun hafi verið kynnt hjá ríkissáttasemjara. Ekki hafi verið jákvæð viðbrögð við þessari bókun hjá verkalýðsfélögunum. Hún segist hins vegar standa við bókunina og að kostnaður þurfi ekki að fara í gegnum gjaldskrá sveitarfélaga. Hægt væri að útfæra þetta með öðrum hætti.  

„Það er ekki búið að útfæra þetta en við í stjórninni sögðum að við værum tilbúin að útfæra þetta með ýmsum hætti,“ segir Heiða. Verða mögulegar útfærslur kynntar fyrir 1. maí.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert