Lögreglan með 189 milljóna veð í Herkastalanum

Frá aðgerðum lögreglu við Herkastalann í síðustu viku.
Frá aðgerðum lögreglu við Herkastalann í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur kyrrsett Herkastalann, fasteign í eigu félags Davíðs Viðarssonar. Það var gert tveimur dögum eftir umfangsmikla lögregluaðgerð þar sem staðnum var meðal annars lokað. Er lögreglustjórinn nú með 189 milljóna veð í kastalanum. 

Systir viðskiptafélaga Davíðs er auk þess með veð í Herkastalanum í formi tryggingarbréfs upp á 360 milljónir.

Þetta má sjá á veðbandayfirliti fasteignarinnar.

Þá hefur lögreglan einnig fryst bankareikninga og kyrrsett aðra fjármuni í tengslum við rannsóknina.

Eins og mbl.is hefur áður greint frá var aðgerðin til komin vegna rannsóknar á mansali, skipulagðri brotastarfsemi, fíkniefnapeningaþvættis og brota á atvinnuréttindum útlendinga.

Í umfjöllun Ríkisútvarpsins kom fram að kaup Davíðs á Herkastalanum hefðu styrkt grun lögreglu um að rannsaka þyrfti viðskiptaveldi hans nánar.

Landsbankinn með 440 milljóna króna veð

NQ fasteignir, félag í eigu Davíðs Viðarssonar, keypti Herkastalann í janúar árið 2022 á hálfan milljarð.

Davíð opnaði síðar gistiheimilið Kastali guesthouse í fasteigninni sem var starfrækt þangað til í síðustu viku.

Í janúar 2022 lánaði Landsbankinn NQ fasteignum 400 milljónir til kaupa á fasteigninni. Í september sama ár lánaði bankinn félaginu 40 milljónir til viðbótar vegna kaupanna, en afsal vegna viðskiptanna var gefið út í ágúst þetta sama ár. 

Er Landsbankinn samanlagt með 440 milljóna veð í fasteigninni á fyrsta og öðrum veðrétti.

Starfsemi Davíðs í kastljósi fjölmiðla

Rúmu ári síðar, undir lok september 2023, réðst heilbrigðiseftirlitið í umfangsmikla aðgerð í Sóltúni 20, þar sem mörg tonn af matvælum voru geymd við óheilnæmar aðstæður. Annað félag í eigu Davíðs, Vy-þrif, var með kjallarann á leigu. 

Í aðgerð heilbrigðiseftirlitsins vaknaði grunur um að fólk hefði hafst við í kjallaranum en þar fundust m.a. tjald, koddar, sængur og óhrein matarílát. Rottur og mýs áttu greiðan aðgang um kjallarann og fundust meindýrin bæði dauð og lifandi innan um matvælin. 

Matvælunum var fargað en grunur leikur á um að matvælin hafi verið matreidd á veitingastöðum Davíðs, Pho Vietnamese og Wok on. 

Tryggingarbréf upp á 360 milljónir

Þann 4. október, örfáum dögum eftir aðgerð heilbrigðiseftirlitsins, gefa NQ fasteignir út tryggingarbréf til handa Darko ehf upp á 360 milljónir króna. Er veitt veð á þriðja veðrétti á bæði Herkastalanum við Kirkjustræti 2 og fasteign á Reykjavíkurvegi 66 í Hafnarfirði, þar sem Wok on veitingastaður var til húsa. 

Sama dag gefa NQ fasteignir út veðskuldabréf til handa HH81 ehf. upp á 40 milljónir, en það er á fjórða veðrétti. Kyrrsetningargerð lögreglunnar er svo á fimmta veðrétti.

Þess ber að geta að skráður eigandi Darko er körfuknattleikskonan Ísabella Ósk Sigurðardóttir, dóttir hjónanna Sigríðar H. Kristjánsdóttur og Sigurðar Júlíusar Leifssonar, sem eru jafnan kennd við World Class, en Sigurður er bróðir Björns Leifssonar í World Class. Ísabella er jafnframt systir Kristjáns Ólafs Sigríðarsonar, sem átti WOKON ehf. áður en hann seldi Davíð Viðarssyni fyrirtækið.

Þá er Kristján Ólafur jafnframt stjórnarmaður í fyrirtækinu WOKON Mathöll ehf. sem er í eigu Davíðs. Kristján var 27. febrúar dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattsvik.

Skráður eigandi HH81 er Hörður Harðarson, viðskiptafélagi Kristjáns í Wok on í gegnum félögin HH81 og MK Capital, sem var úrskurðað gjaldþrota árið 2019.

Í samtali við mbl.is staðfesti Ísabella Ósk að hún væri eigandi Darko en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

„Stöðluð vinnubrögð“

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að eignir séu kyrrsettar til að reyna að stöðva það að þeim sé komið undan. „Þetta er eitthvað sem við grípum til þegar við skoðum það hvort við erum með peningaþvætti. Þá reynum við að tryggja þær eignir sem eru til staðar.

Hann tekur þó fram að þetta sé almennt gert í málum sem þessum óháð því hvort grunur leiki um undanskot. „Það var svo sem ekkert endilega grunur heldur er það bara þannig að þegar við erum að rannsaka peningaþættir er oft gripið til þess að kyrrsetja eignir sem verður hugsanlega sýnt fram á síðar að sé ávinningur af ólögmætri háttsemi.

Hann segir heldur ekki ótta hafa verið um undanskot. „Nei það var ekkert endilega ótti um það. Þetta eru bara vinnubrögð sem við höfum þegar við erum að rannsaka peningaþvættismál, ef það eru eignir sem eru til staðar þá kyrrsetjum við þær. Í þessu felast ekkert endilega grunsemdir um það að það eigi að fara að koma þeim undan. Þetta eru bara stöðluð vinnubrögð.“

Frystir bankareikningar og kyrrsettir fjármunir

Spurður út í 189 milljóna veðið segir Grímur að það sé gert miðað við eigið fé í eigninni. Þá staðfestir hann að hald hafi verið lagt á einhverja fjármuni í aðgerðunum og að nokkrir bankareikningar hafi verið frystir. „Ég er ekki með neinar tölur í því sambandi,“ segir hann um heildarupphæðir. Grímur staðfestir jafnframt að engar aðrar eignir hafi verið kyrrsettar.

Spurður hvers vegna aðeins Herkastalinn hafi verið kyrrsettur segir Grímur að hann geti ekki farið út í það. „Þetta er bara það sem ákvörðun er tekin um hverju sinni.“

Höfnuðu tengslum við lagerinn

Fyrsta fréttin af matvælalager Davíðs í Sóltúni birtist daginn eftir útgáfu bréfanna, þann 5. október, þegar mbl.is greindi frá aðgerð matvælaeftirlitsins.

Á þeim tíma voru tvö fyrirtæki að reka Wok on veitingastaðina, annars vegar WOKON ehf. í eigu Kristjáns Ólafar, og hins vegar WOKON mathöll ehf. í eigu Davíðs Viðarssonar.

10. október sendu forsvarsmenn WOKON ehf. frá sér yfirlýsingu þar sem þeir höfnuðu öllum tengslum við matvælalagerinn í Sóltúni. Þá kom fram að Davíð hefði engin tengsl við WOKON ehf.

Eins og áður kom fram er Davíð nú skráður eigandi beggja fyrirtækja og er Kristján Ólafur jafnframt skráður stjórnarmaður í WOKON mathöll ehf.

Í umfjöllun Kveiks greindi ónafngreindur fyrrverandi starfsmaður Davíðs frá því að hann hefði farið í kjallarann í Sóltúni til að ná í vörur fyrir veitingastaðina Pho Vietnamese og Wok on.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert