Lögreglan með 189 milljóna veð í Herkastalanum

Frá aðgerðum lögreglu við Herkastalann í síðustu viku.
Frá aðgerðum lögreglu við Herkastalann í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lög­reglu­stjór­inn á höfuðborg­ar­svæðinu hef­ur kyrr­sett Her­kastal­ann, fast­eign í eigu fé­lags Davíðs Viðars­son­ar. Það var gert tveim­ur dög­um eft­ir um­fangs­mikla lög­regluaðgerð þar sem staðnum var meðal ann­ars lokað. Er lög­reglu­stjór­inn nú með 189 millj­óna veð í kast­al­an­um. 

Syst­ir viðskipta­fé­laga Davíðs er auk þess með veð í Her­kastal­an­um í formi trygg­ing­ar­bréfs upp á 360 millj­ón­ir.

Þetta má sjá á veðbanda­yf­ir­liti fast­eign­ar­inn­ar.

Þá hef­ur lög­regl­an einnig fryst banka­reikn­inga og kyrr­sett aðra fjár­muni í tengsl­um við rann­sókn­ina.

Eins og mbl.is hef­ur áður greint frá var aðgerðin til kom­in vegna rann­sókn­ar á man­sali, skipu­lagðri brot­a­starf­semi, fíkni­efna­pen­ingaþvætt­is og brota á at­vinnu­rétt­ind­um út­lend­inga.

Í um­fjöll­un Rík­is­út­varps­ins kom fram að kaup Davíðs á Her­kastal­an­um hefðu styrkt grun lög­reglu um að rann­saka þyrfti viðskipta­veldi hans nán­ar.

Lands­bank­inn með 440 millj­óna króna veð

NQ fast­eign­ir, fé­lag í eigu Davíðs Viðars­son­ar, keypti Her­kastal­ann í janú­ar árið 2022 á hálf­an millj­arð.

Davíð opnaði síðar gisti­heim­ilið Kast­ali gu­est­hou­se í fast­eign­inni sem var starf­rækt þangað til í síðustu viku.

Í janú­ar 2022 lánaði Lands­bank­inn NQ fast­eign­um 400 millj­ón­ir til kaupa á fast­eign­inni. Í sept­em­ber sama ár lánaði bank­inn fé­lag­inu 40 millj­ón­ir til viðbót­ar vegna kaup­anna, en af­sal vegna viðskipt­anna var gefið út í ág­úst þetta sama ár. 

Er Lands­bank­inn sam­an­lagt með 440 millj­óna veð í fast­eign­inni á fyrsta og öðrum veðrétti.

Starf­semi Davíðs í kast­ljósi fjöl­miðla

Rúmu ári síðar, und­ir lok sept­em­ber 2023, réðst heil­brigðis­eft­ir­litið í um­fangs­mikla aðgerð í Sól­túni 20, þar sem mörg tonn af mat­væl­um voru geymd við óheil­næm­ar aðstæður. Annað fé­lag í eigu Davíðs, Vy-þrif, var með kjall­ar­ann á leigu. 

Í aðgerð heil­brigðis­eft­ir­lits­ins vaknaði grun­ur um að fólk hefði hafst við í kjall­ar­an­um en þar fund­ust m.a. tjald, kodd­ar, sæng­ur og óhrein matarílát. Rott­ur og mýs áttu greiðan aðgang um kjall­ar­ann og fund­ust mein­dýr­in bæði dauð og lif­andi inn­an um mat­væl­in. 

Mat­væl­un­um var fargað en grun­ur leik­ur á um að mat­væl­in hafi verið mat­reidd á veit­inga­stöðum Davíðs, Pho Vietnamese og Wok on. 

Trygg­ing­ar­bréf upp á 360 millj­ón­ir

Þann 4. októ­ber, ör­fá­um dög­um eft­ir aðgerð heil­brigðis­eft­ir­lits­ins, gefa NQ fast­eign­ir út trygg­ing­ar­bréf til handa Dar­ko ehf upp á 360 millj­ón­ir króna. Er veitt veð á þriðja veðrétti á bæði Her­kastal­an­um við Kirkju­stræti 2 og fast­eign á Reykja­vík­ur­vegi 66 í Hafnar­f­irði, þar sem Wok on veit­ingastaður var til húsa. 

Sama dag gefa NQ fast­eign­ir út veðskulda­bréf til handa HH81 ehf. upp á 40 millj­ón­ir, en það er á fjórða veðrétti. Kyrr­setn­ing­ar­gerð lög­regl­unn­ar er svo á fimmta veðrétti.

Þess ber að geta að skráður eig­andi Dar­ko er körfuknatt­leiks­kon­an Ísa­bella Ósk Sig­urðardótt­ir, dótt­ir hjón­anna Sig­ríðar H. Kristjáns­dótt­ur og Sig­urðar Júlí­us­ar Leifs­son­ar, sem eru jafn­an kennd við World Class, en Sig­urður er bróðir Björns Leifs­son­ar í World Class. Ísa­bella er jafn­framt syst­ir Kristjáns Ólafs Sig­ríðar­son­ar, sem átti WO­KON ehf. áður en hann seldi Davíð Viðars­syni fyr­ir­tækið.

Þá er Kristján Ólaf­ur jafn­framt stjórn­ar­maður í fyr­ir­tæk­inu WO­KON Mat­höll ehf. sem er í eigu Davíðs. Kristján var 27. fe­brú­ar dæmd­ur í níu mánaða skil­orðsbundið fang­elsi fyr­ir skattsvik.

Skráður eig­andi HH81 er Hörður Harðar­son, viðskipta­fé­lagi Kristjáns í Wok on í gegn­um fé­lög­in HH81 og MK Capital, sem var úr­sk­urðað gjaldþrota árið 2019.

Í sam­tali við mbl.is staðfesti Ísa­bella Ósk að hún væri eig­andi Dar­ko en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

„Stöðluð vinnu­brögð“

Grím­ur Gríms­son, yfir­lög­regluþjónn miðlægr­ar rann­sókn­ar­deild­ar lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, seg­ir í sam­tali við mbl.is að eign­ir séu kyrr­sett­ar til að reyna að stöðva það að þeim sé komið und­an. „Þetta er eitt­hvað sem við gríp­um til þegar við skoðum það hvort við erum með pen­ingaþvætti. Þá reyn­um við að tryggja þær eign­ir sem eru til staðar.

Hann tek­ur þó fram að þetta sé al­mennt gert í mál­um sem þess­um óháð því hvort grun­ur leiki um und­an­skot. „Það var svo sem ekk­ert endi­lega grun­ur held­ur er það bara þannig að þegar við erum að rann­saka pen­ingaþætt­ir er oft gripið til þess að kyrr­setja eign­ir sem verður hugs­an­lega sýnt fram á síðar að sé ávinn­ing­ur af ólög­mætri hátt­semi.

Hann seg­ir held­ur ekki ótta hafa verið um und­an­skot. „Nei það var ekk­ert endi­lega ótti um það. Þetta eru bara vinnu­brögð sem við höf­um þegar við erum að rann­saka pen­ingaþvætt­is­mál, ef það eru eign­ir sem eru til staðar þá kyrr­setj­um við þær. Í þessu fel­ast ekk­ert endi­lega grun­semd­ir um það að það eigi að fara að koma þeim und­an. Þetta eru bara stöðluð vinnu­brögð.“

Fryst­ir banka­reikn­ing­ar og kyrr­sett­ir fjár­mun­ir

Spurður út í 189 millj­óna veðið seg­ir Grím­ur að það sé gert miðað við eigið fé í eign­inni. Þá staðfest­ir hann að hald hafi verið lagt á ein­hverja fjár­muni í aðgerðunum og að nokkr­ir banka­reikn­ing­ar hafi verið fryst­ir. „Ég er ekki með nein­ar töl­ur í því sam­bandi,“ seg­ir hann um heild­ar­upp­hæðir. Grím­ur staðfest­ir jafn­framt að eng­ar aðrar eign­ir hafi verið kyrr­sett­ar.

Spurður hvers vegna aðeins Her­kastal­inn hafi verið kyrr­sett­ur seg­ir Grím­ur að hann geti ekki farið út í það. „Þetta er bara það sem ákvörðun er tek­in um hverju sinni.“

Höfnuðu tengsl­um við lag­er­inn

Fyrsta frétt­in af mat­vælala­ger Davíðs í Sól­túni birt­ist dag­inn eft­ir út­gáfu bréf­anna, þann 5. októ­ber, þegar mbl.is greindi frá aðgerð mat­væla­eft­ir­lits­ins.

Á þeim tíma voru tvö fyr­ir­tæki að reka Wok on veit­ingastaðina, ann­ars veg­ar WO­KON ehf. í eigu Kristjáns Ólaf­ar, og hins veg­ar WO­KON mat­höll ehf. í eigu Davíðs Viðars­son­ar.

10. októ­ber sendu for­svars­menn WO­KON ehf. frá sér yf­ir­lýs­ingu þar sem þeir höfnuðu öll­um tengsl­um við mat­vælala­ger­inn í Sól­túni. Þá kom fram að Davíð hefði eng­in tengsl við WO­KON ehf.

Eins og áður kom fram er Davíð nú skráður eig­andi beggja fyr­ir­tækja og er Kristján Ólaf­ur jafn­framt skráður stjórn­ar­maður í WO­KON mat­höll ehf.

Í um­fjöll­un Kveiks greindi ónafn­greind­ur fyrr­ver­andi starfsmaður Davíðs frá því að hann hefði farið í kjall­ar­ann í Sól­túni til að ná í vör­ur fyr­ir veit­ingastaðina Pho Vietnamese og Wok on.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert