Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á eldsvoða í Hafnartúnshúsinu á Selfossi hefur leitt í ljós að um íkveikju var að ræða. Nokkur ungmenni hafa stöðu sakborninga í málinu og er rannsóknin unnin í samráði við barnaverndaryfirvöld.
Tilkynning um eldinn barst laugardagskvöld. Slökkvistarf tók nokkurn tíma þar sem eldsmatur var mikill. Stendur húsið nú gjörónýtt eftir brunann.
Lögreglan á Suðurlandi naut aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og brunasérfræðings frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.