Ólafur Jóhann hyggur ekki á forsetaframboð

Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur.
Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur mun ekki gefa kost á sér í embætti forseta Íslands.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Ólafur hefur sent frá sér. Hann er einn þeirra sem orðaður hafa verið við embættið og samkvæmt heimildum mbl.is hefur verið nokkuð sótt að honum að bjóða sig fram. Jafnframt hafi fólk verið boðið og búið að veita framboðinu liðsinni.

Ólafur hafi hins vegar í samráði við fjölskyldu sína ákveðið að ekki væri rétt að fara fram að sinni.

Standi vörð um menningu okkar og tungu 

„Að gefnu tilefni tilkynni ég að ég hyggst ekki gefa kost á mér í kjöri til forseta Íslands,“ segir Ólafur Jóhann.

„Ég vil færa þeim fjölmörgu sem hafa hvatt mig til að bjóða mig fram innilegar þakkir en með því hafa þau sýnt mér ómetanlegt traust.

Ég treysti þjóðinni til að finna í þetta vandmeðfarna embætti einstakling sem er því vaxinn – gætir hagsmuna Íslands heima og heiman, stendur vörð um menningu okkar og tungu, þekkir sögu okkar og sérstöðu en sér um leið fram á veginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert