Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur og Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur spá því að innstreymi kviku undir Svartsengi ljúki síðsumars og þar með hreyfingunum nálægt Grindavík.
Þetta kemur fram í færslu á bloggi Haralds en jarðvísindamennirnir tveir benda á að hraði kvikusöfnunar undir Svartsengi sé að hægja á sér.
Ljóst sé að meðalinnrennslið sé fallandi með tíma og hafi nánast helmingast frá fyrsta kvikuhlaupinu.
Frá því í byrjun mars hefur Veðurstofan reglulega birt graf sem sýnir kvikuinnrennsli í lagganginn undir Svartsengi. Haraldur og Grímur segja það framtak Veðurstofu vera til fyrirmyndar því nú geti jarðvísindafólk innan sem utan stofunnar nýtt upplýsingarnar til að túlka ástandið og giska á framhaldið.
Segjast þeir telja að nú liggi fyrir vísindagögn, sem leyfi þeim að áætla hvenær kvikuhreyfingum og gosum ljúki í Sundhnúkagígaröðinni.
Frumspá jarðvísindamannanna um lok umbrota í Grindavík byggir á meðalinnstreymi kviku inn í ganginn. Þeir gera ráð fyrir línulegri hegðun. Þeir sýna tvær spár: Önnur innifelur „vafasama“ gagnapunktinn frá 11. mars 2024 á meðan hin er án hans.
„Þessi einfalda aðferð spáir því að innstreymi kviku í lagganginn undir Svartsengi ljúki síðsumars árið 2024, og þar með hreyfingunum í Sundhnúk suður um til Grindavíkur.“