Fjelagið eignarhaldsfélag ehf. hefur sagt upp samningum sínum við Vietnamese Cuisine ehf. sem er í eigu Davíðs Viðarssonar, sem er einn þeirra sem handteknir hafa verið vegna gruns um mansal, peningaþvætti og skipulagða brotastarfsemi.
Samkvæmt upplýsingum frá lögmanni Fjelagsins eignarhaldsfélags voru tvær eignir félagsins í útleigu hjá Vietnamese Cuisine ehf. Annað húsanna var að Vesturgötu 2 þar sem Kaffi Reykjavík var áður til húsa.
Til stóð að opna þar mathöll en samningi var rift þann 7. mars vegna vanefnda að því er fram kemur í máli lögmanns félagsins. Var það einungis tveimur dögum eftir að lögregla handtók sex einstaklinga af víetnömskum uppruna eftir umfangsmiklar lögregluaðgerðir.
„Eigandi eignarinnar að Vesturgötu 20 hefur nú þegar hafið vinnu við frekari þróun eignarinnar, meðal annars með samtölum við áhugasama aðila um rekstur í eigninni,“ segir lögmaðurinn.
Þá kemur einnig fram að Fjelagið ehf hafi sagt upp samningi sínum við Víetnam Cuisine ehf. vegna húsnæðis að Tryggvagötu 20. Þar hefur verið starfræktur veitingastaðurinn Pho Vietnam.
Pho Vietnam hefur verið með starfsemi á fimm stöðum í Reykjavík. Laugavegi 3, Laugavegi 101, Suðurlandsbraut 8, Skólavörðustíg 42 og Tryggvagötu 20.