Sögufræga björgunarþyrlan TF-LIF er komin til Akureyrar og er nú til sýnis á Flugsafni Íslands.
Þyrlan var seld í fyrra en kaupandinn eftirlét öldungaráði Landhelgisgæslunnar og safninu skrokk þyrlunnar svo hægt væri að varðveita björgunarþyrluna. Henni var ekið frá Reykjavík norður á Akureyri í dag og ET flutningar tóku að sér að flytja þyrluna að kostnaðarlausu.
„Við eigum eftir að setja hana á varanlegan stað. Hún er bara komin inn. Við þurfum að nýta vorið og sumarið til að gera hana sýningarhæfa Við þurfum dálítið pláss í kringum hana til þess og þegar við erum búin að því þá komum við henni fyrir á varanlegum stað inni í safninu,“ segir Steinunn María Sveinsdóttir, safnstjóri flugsafnsins, í samtali við mbl.is en hún telur þyrluna vera kærkomna viðbót á safnið.
„En hún er komin og hún er til sýnis.“
TF-LIF fær góðan félagsskap með stystrum sínum tveimur, TF-SIF og TF-SÝN.
„Björgunarflug og sjúkraflug er svo stór partur af íslenskri flugsögu. Þannig að það er mikilvægt að gefa henni [þyrlunni] góð skil,“ segir Steinunn María. „Hún á sér svo ríka sögu.“
TF-LIF kom til landsins árið 1995 og var í notkun fram til 2020. Alls voru það 1.565 manns sem var bjargað eða fluttir í sjúkraflugi með þyrlunni á 25 ára tímabili. Hún á því einstakan sess í björgunarsögu Íslands.
Fjallað var um sögu þyrlunnar í Morgunblaðinu í febrúar.