Björgunarþyrlan sögufræga, TF-LIF, yfirgaf Reykjavíkurflugvöll í síðasta sinn í morgun. Þyrlunni var ekið norður á Akureyri og verður til sýnis á Flugsafni Íslands þegar fram líða stundir.
Þyrlan var seld í fyrra en kaupandinn eftirlét öldungaráði Landhelgisgæslunnar og safninu skrokk þyrlunnar svo hægt væri að varðveita björgunarþyrluna, að því er segir í tilkynningu.
„Koma Lífar til Landsins árið 1995 olli straumhvörfum í þyrlurekstri Landhelgisgæslunnar. Þyrlan var mun stærri og öflugri en þær sem fyrir voru. Ekki leið á löngu þar til kaupin voru búin að sanna gildi sig því á tæpri viku í mars árið 1997 var 39 skipbrotsmönnum bjargað um borð í þyrluna þegar Víkartindur, Þorsteinn GK og Dísarfell fórust, “ segir þar einnig.
„Fjölmenni fagnaði þyrlunni þegar hún kom til landsins 23. júní 1995. Flugstjórarnir Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson flugu þyrlunni til Íslands frá Frakklandi og við heimkomuna sagði Páll að þyrlan hefði reynst vel á heimleiðinni. ,, Þessi þyrla uppfyllir allar okkar óskir og er bylting“.“
Benóný, Páll og fleiri úr öldungaráðinu voru viðstaddir þegar þyrlan var hífð á pall flutningabílsins í morgun.