Ekki skýr merki um endalok jarðhræringa

Um 400 þúsund rúmmetrar af kviku streyma inn undir Svartsengi …
Um 400 þúsund rúmmetrar af kviku streyma inn undir Svartsengi á hverjum sólarhring. mbl.is/Árni Sæberg

Sérfræðingar á Veðurstofu Íslands segja að engin skýr merki séu um að jarðhræringum á Reykjanesskaga og við Grindavík ljúki á næstunni.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að skýr merki sjáist um að kvika streymi inn undir Svartsengi og að streymið hafi ekki breyst milli þeirra þriggja atburða sem orðið hafa frá áramótum. 

Segir þar enn fremur að áður en hægt sé að spá fyrir um tímasetningu á endalokum þeirra atburðarásar sem er enn í gangi þurfi að sjást merki um að streymi kviku hafi minnkað verulega milli atburða. 

Túlkun Veðurstofunnar á þeim gögnum sem fyrir liggja sýna engin skýr merki um að það sé þróunin.

Línuritið sýnir 6 tímabil, frá síðari hluta október 2023, þar …
Línuritið sýnir 6 tímabil, frá síðari hluta október 2023, þar sem kvikusöfnun hefur mælst undir Svartsengi. Þar sést að í síðustu þremur atburðum, skyggt með gráum bakgrunni, hefur það magn kviku (vinstri ásinn) sem safnast saman haldist stöðugt í kringum 400.000 rúmmetrar á sólarhring. Kort/Veðurstofa Íslands

Telja enn líkur á eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni

Um 400 þúsund rúmmetrar af kviku streyma inn á hverjum sólarhring. „Út frá þeim gögnum sem fyrir liggja um það stöðuga magn kviku sem safnast saman undir Svartsengi á degi hverjum, er of snemmt að fara að spá fyrir um lok þeirrar atburðarásar sem hófst í lok október á síðasta ári,“ segir í tilkynningunni.

Telja sérfræðingar Veðurstofunnar því að enn séu líkur á öðru kvikuhlaupi og að það leiði til eldgoss á Sundhnúkagígaröðinni. 

Áréttir Veðurstofan í tilkynningu sinni að mikilvægt sé að horfa til þess að á árunum 2020 til 2022 voru fjögur tímabil, með mislöngum hléum, þar sem kvikusöfnun mældist undir Svartsengi. Tæpir 16 mánuðir liðu áður en kvikusöfnun, sem stendur enn yfir, hófst að nýju í lok október 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert