Fleiri á móti þátttöku Íslands í Eurovision

Hera Björk flytur lagið Scared of Heights.
Hera Björk flytur lagið Scared of Heights. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fleiri Íslendingar vilja að Ísland sitji hjá í Eurovision í ár en þeir sem vilja að þjóðin taki þátt. 

Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun Maskínu. Samkvæmt niðurstöðunum hennar voru 32,3% svarenda hlynntir þátttöku Íslands í keppninni en 42,2% andvígir henni. Þá voru 25,5% svarenda sama.

Ríkisútvarpið tilkynnti fyrr í vikunni að Hera Björk færi út til Malmö og myndi keppa í Eurovision fyrir Íslands hönd með laginu Scared of Heights.

Fram að því var ekki ljóst hvort Ísland myndi taka þátt í ár. Annars vegar var hávær krafa um að Ísland sniðgengi keppnina vegna þátttöku Ísraels og hins vegar var vandræðagangur í kringum atkvæðagreiðsluna í lokaeinvígi söngvakeppninnar hér heima sem setti strik í reikninginn.

Tæp 40% óánægð

Samkvæmt niðurstöðum Maskínu eru 39,5% svarenda óánægðir með framlag Íslands í keppninni í ár. 33,4% voru ánægð og 27,1% voru í meðallagi sátt.

Þess ber þó að geta að fleiri Íslendingar vildu að lagið hennar Heru yrði valið sem framlag Íslands fram yfir lag Bashars Murad, Wild West. Þannig voru 42% svarenda hlynntari því að lagið hennar Heru myndi sigra einvígið samanborið við 37,9% sem voru hrifnari af laginu hans Bashar. 20% svarenda var alveg sama.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka