Forsetamambó, sprungið fasteignamat og fiskeldiskarp

Jens Garðar Helgason, Jón Kaldal, Marta María Winkel Jónasdóttir og …
Jens Garðar Helgason, Jón Kaldal, Marta María Winkel Jónasdóttir og Diljá Mist Einarsdóttir eru gestir Stefáns Einars Stefánssonar í Spursmálum. Samsett mynd

Óhætt er að segja að kastast hafi í kekki á milli þeirra Jens Garðars Helgasonar aðstoðarforstjóra Fiskeldis Austfjarða og Jóns Kaldal talsmanns Íslenska Náttúruverndarsjóðsins í nýjasta þætti af Spursmálum sem sýndur var í beinu streymi hér á mbl.is fyrr í dag.

Upptöku af þættinum má nálgast hér að neðan og er hún öllum aðgengileg.

Skýrsla HHÍ til umræðu

Gustað hefur um laxeldismálin hér á landi að undanförnu eftir að skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands leit dagsins ljós og ljóst að skiptar skoðanir eru á fiskeldi við strendur Íslands.

Hafa ákveðin sjónarmið verið uppi um að slík starfsemi geti valdið meiri skaða en verðmætum, þá sérstaklega þegar litið er til umhverfissjónarmiða. Ekki eru þó allir á þeim buxunum líkt og lesa má úr þeirri líflegu umræðu sem skapaðist í þættinum.

Munu Kata Jak og Jón Gnarr etja kappi?

Yfirferð á fréttum vikunnar var einnig á sínum stað. Þær Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Marta María Winkel Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála Morgunblaðsins fóru yfir það sem mest fór fyrir í líðandi viku með fjörugum hætti og ófáum hlátrasköllum.

Rýndu þær í yfirvofandi forsetakosningar og mögulega frambjóðendur til embættisins. Nokkur þjóðþekkt nöfn hafa verið nefnd í því samhengi síðustu daga og sögð liggja undir feldi til íhugunar um næstu skref.

Þá ræddu þær einnig um fasteignamarkaðinn og telja að þar geti fjandinn verið laus þegar einbýlishús eru nánast farin að seljast á milljarð líkt fjallað hefur verið um í vikunni sem senn er á enda.

Ekki missa af skemmtilegri og upplýsandi umræðu í Spursmálum hér á mbl.is alla föstudaga kl. 14.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert