Heimir Már Pétursson, blaðamaður fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, hefur hlotið blaðamannaverðlaun ársins 2023 fyrir ítarlega og vandaða umfjöllun um kjaramál.
Vakti viðtal Heimis við Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar og Halldór Benjamín Þorbergsson, þáverandi framkvæmdastjóra SA, mikla athygli. Deilan var þá komin á algjöran hnút en Heimir Már fékk þau saman í ítarlegt viðtal í beinni útsendingu þar sem þau féllust á að fresta verkföllum og verkbanni ef ný miðlunartillaga yrði lögð fram.
Þetta kom fram við afhendingu blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags íslands rétt í þessu.
Margrét Marteinsdóttir, blaðamaður á Heimildinni, hlaut verðlaun fyrir viðtal ársins. Tók hún viðtal við Gyrði Elíasson rithöfund sem hefur í gegnum tíðina forðast kastljós fjölmiðla.
„Í viðtalinu ræðir hann í fyrsta sinn opinskátt um þunglyndi sem hann hefur glímt við í áratugi, og segir það vera vissan þráð í gegnum öll sín verk. Viðtalið er yndislestur og afar vel unnið, þar sem ljóðlist Gyrðis er meðal annars listilega fléttað inn í frásögnina,“ segir í tilnefningu.
Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson, blaðamaður á Heimildinni, hlaut verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins. Var það fyrir fréttaskýringar um endurvinnsluferli drykkjarferna sem afhjúpaði að fernur, sem fjölmargir Íslendingar hafa flokkað, eru brenndar í sementsverksmiðjum á meginlandi Evrópu. Málið er einnig þekkt sem „fernumálið“.
„Umfjöllun og rannsókn Bjartmars var umfangsmikil og teygði sig til margra landa og hafði margvísleg áhrif, meðal annars þær að breytingar urðu á stjórnendateymi Úrvinnslusjóðs og nýtt verklag var innleitt við endurvinnslu á drykkjarfernum,“ segir í útskýringu á tilnefningu hans.
Jóhannes Kr. Kristjánsson, Sævar Guðmundsson og Heimir Bjarnason, Reykjavík Media og Purkur kvikmyndagerð, hlutu verðlaun fyrir umfjöllun ársins. Var það fyrir sjónvarpsþættina Stormur sem fjölluðu um Covid 19-faraldurinn á Íslandi frá hliðum sem ekki höfðu sést áður í fjölmiðlum hér á landi.
„Mannlegar hliðar faraldursins voru í forgrunni í þáttunum með áhrifamiklum sögum af því hvernig almenningur tókst á við sjúkdóminn og hraða útbreiðslu hans, sem og sögum af þeim sem stóðu í framlínu baráttunnar fjarri ættingjum sínum,“ kemur fram í tilnefningu þeirra.