Ekki tókst að bjarga neinu þegar bruni kom upp í Snyrtistofunni Garðatorgi í síðustu viku. Starfsmenn snyrtistofunnar voru þó fljótir til að endurreisa reksturinn. Þeir fundu nýtt húsnæði í Hlíðasmára 6 og hófu starfsemi á ný tæpri viku eftir brunann.
Erna Gísladóttir, snyrtifræðimeistari og eigandi Snyrtistofu Garðatorgs segir ferlið búið að vera ótrúlegt og að velvilji fólks hafi skipt sköpum í flutningunum.
„Nei, það tókst því miður ekki að bjarga neinu, við áttum því ekkert á fimmtudaginn til að hefja aftur reksturinn,“ segir Erna aðspurð hvort einhverju hefði verið bjargað úr brunanum.
Hún segir stofuna hafa þurft að fjárfesta í nýjum búnaði, en að aðrar snyrtistofur og fyrrverandi starfsmenn hennar sem reka eigin stofur í dag hafi lagt starfseminni lið með því að lána stofunni ýmsan búnað.
„Það eru jafnvel konur í faginu sem ég þekki ekki sem lána mér stóla og græjur, þannig þetta er búið að vera ótrúlegt ferli, einnig hafa heildsölur og birgjar hjálpað til við að koma okkur aftur í gang.“
„Með velvilja, frábæru starfsfólki og hóp af góðu fólki sem samanstendur af fjölskyldu og vinum tókst okkur að opna aftur á miðvikudaginn,“ segir Erna og bendir á að það hafi verið innan við viku frá brunanum í Garðatorgi.
„Við fengum svo starfsleyfi klukkan tólf á miðvikudaginn og fyrstu viðskiptavinirnir voru mættir klukkan eitt sama dag,“ segir hún og að margir hafi hlaupið undir bagga til að láta þetta ganga upp.
Hún segir þau hafa farið í húsnæðisleit strax og fengið nýtt húsnæði í Hlíðasmára 6 síðastliðinn mánudag.
„Og nú erum við komin í rekstur með nánast jafn stóra stofu og við vorum með, þetta hefur allt gerst hraðar en okkur óraði fyrir.“
Erna segir að þau hafi húsnæðið tímabundið í leigu, en að þau taki stöðuna frá degi til dags:
„Við erum með ellefu manns í vinnu og viðskiptavini, þannig þetta var bara forgangsverkefni að koma þessu af stað.“
„Það er bara ótrúlega dásamlegt hvað allir eru velviljaðir og ánægðir með að fá tímana sína,“ segir Erna aðspurð út í viðbrögð viðskiptavinanna.
„Fyrir okkur skiptir mestu máli að geta þjónustað okkar góðu viðskiptavini líkt og við höfum gert síðastliðin 20 ár.“