Hryðjuverkalöggjöfin geti verið endurskoðuð

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, telur mögulegt að hryðjuverkalög verði endurskoðuð í …
Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, telur mögulegt að hryðjuverkalög verði endurskoðuð í kjölfar dóms héraðsdóms Reykjavíkur fyrr í vikunni. mbl.is/Eyþór

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra útilokar ekki að hryðjuverkalöggjöfin geti verið endurskoðuð í kjölfar þess að ekki náðist að sakfella þá tvo sem ákærðir voru í hryðjuverkamálinu.

Í dóminum segir að ekki hafi tekist að sanna „ótvírætt“ að þeir hafi verið að undirbúa hryðjuverk.

Löggjöf endurskoðuð þegar veikleikar komi í ljós

„Ég tel það alveg einboðið að við munum skoða þetta í kjölfar þessarar niðurstöðu, þótt engin ákvörðun hafi verið tekin um það. Það er mjög oft gert eftir niðurstöðu í sambærilegum málum. Þegar veikleikar í löggjöf koma fram er full ástæða til þess að skoða það.“

Þetta sagði Guðrún við blaðamann mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. 

Sönnunarkrafan minni í dönsku fyrirmynd laganna

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, hefur nefnt þá veikleika sem hann telur í löggjöfinni. Fram kom í málflutningi hans fyrir dómi að íslensku hryðjuverkalögin séu fengin að danskri fyrirmynd. Vísuðu bæði hann og verjendur til dómafordæmis í Danmerkur máli sínu til stuðnings.

Í niðurstöðum dómsins sjálfs var sérstaklega tekið fram að forsenda þess að unnt sé að sakfella ákærðu fyrir tilraun til hryðjuverka er að þeir hafi „ótvírætt sýnt þann ásetning í verki, sem miðar eða er ætlað að miða að framkvæmd brotsins.“

Í dómi héraðsdóms er gefið til kynna að sönnunarkröfur geti verið minni í dönskum rétti þegar ásetningur er metinn. Voru sakborningar látnir njóta vafans um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert