Orðspor bítlabæjarins í húfi

Rokksafn Íslands.
Rokksafn Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flutningur bókasafns Reykjanesbæjar í Hljómahöll gæti ógnað orðspori bæjarins sem „bítlabæjar“ samkvæmt SVÓT-greiningu sem gerð var um flutning safnsins á síðasta ári. Þá muni salarleiga örugglega dragast saman og Rokksafn Íslands mun leggjast af í núverandi mynd.

Ef bókasafnið yrði flutt gæti þó mögulega fleira fólk kíkt á Hljómahöllina, fleiri bílastæði væru í boði fyrir gesti bókasafnsins og er þá möguleiki á góðu og björtu barnasvæði í Merkinesi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í SVÓT-greiningu sem gerð var til að greina styrkleika, veikleika, ógnanir og tækifæri við þrjár mögulegar sviðsmyndir fyrir framtíð bókasafns Reykjanesbæjar.

Eins og mbl.is hefur greint frá þá kusu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Beinnar leiðar og Umbótar með því að flytja bókasafn bæjarins í rými Rokksafnsins í Hljómahöll. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins kusu gegn þeirri tillögu. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði í samtali við mbl.is að Rokksafnið yrði lagt niður, en ekki er búið að taka formlega ákvörðun um það.

Greindi nokkrar sviðsmyndir

Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir var fengin til að gera greinargerð á síðasta ári um staðsetningu bókasafnsins til framtíðar. Vitnað er í ákveðna hluta þeirrar greinargerðar í skýrslu sem Guðný Birna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar og oddviti Samfylkingarinnar, gerði og hefur veitt mbl.is aðgang að.

Í greinargerð Guðrúnar framkvæmdi hún SVÓT-greiningu þar sem rýnt var í þrjár sviðsmyndir. Að bókasafnið yrði áfram á Tjarnargötu 12, að bókasafnið yrði flutt í Hljómahöll og húsið yrði að menningarhúsi Reykjanesbæjar eða að byggt yrði nýtt bókasafn og farið væri í samkeppni um nýbyggingu þess. Óþarfi þótti að rýna sérstaklega leið 1 þar sem fyrirséð var að bókasafnið yrði ekki áfram á Tjarnargötu 12.

Margir styrkleikar og margar ógnanir

Ef farin yrði sú leið að færa bókasafnið í Hljómahöll, sem nú hefur verið ákveðið, þá kemur ýmist fram um möguleg áhrif á núverandi starfsemi Hljómahallar (Rokksafnið, tónlistarskólann og Stapa). Athygli vekur að fjöldi „styrkleika“ reiðir sig á það að Rokksafnið verði áfram í Hljómahöll. Þessi SVÓT-greining horfir aðeins til mögulegra áhrifa á Hljómahöllina.

Styrkleikar:

- Fleira fólk í húsinu yfir daginn.

- Undir sama sviði og bókasafnið.

- Þrjár einingar sem eru allar mjög virkar og concept sem virkar vel.

- Tónlistarskóli nýtir rými mjög vel.

- Rokksafnið er vörumerki.

- Rokksafnið er verðlaunasafn.

- Rokksafnið sem aðdráttarafl fyrir salarleigu Hljómahallar.

- Salur Rokksafnsins hentar vel fyrir sýningar og viðburði.

- Húsið hannað fyrir tónlist og tónlistarmenningu.

- Sterkt samfélag í húsinu og starfsemi sem styður við hvor aðra.

- Íbúar nota sali mikið fyrir t.d. fermingar og brúðkaup.

- Fjölbreytni í menningarstarfi.

- Menntastofnun og menningarstofnanir saman.

- Góðir viðburðasalir fyrir stóra og litla hópa.

- Menningarlegt gildi fyrir sveitarfélagið.

Veikleikar:

- Tónlistarskólinn „víkjandi“ þegar greiddar bókanir koma á sali.

- Gefa eftir rými sem er minna notað núna en gæti nýst til framtíðar t.d. herbergi á efri hæð sem notuð eru til æfinga á hljóðfæri.

- Rokksafnið gæti þynnst út ef sýningarmunum yrði dreift um húsnæðið og blandast annarri starfsemi.

- Erfitt væri að markaðssetja Rokksafnið ef það hefur ekki skýra staðsetningu í rými (er dreift um húsið eða blandast bókasafninu).

- Geymslurými er þegar þröngt fyrir búnað sem fylgir Stapa.

- Vantar stefnumótun fyrir Hljómahöllina.

- Bílastæði oft full þegar stórir viðburðir eru í húsinu.

- Ónæði af tilfærslu búnaðar úr geymslu þegar stórir viðburðir eru í húsinu.

Ógnanir:

- Bítlabærinn Keflavík - orðspor.

- Tónlistarskólinn getur sjaldnar nýtt rýmin.

- Bæjarstjórn/bæjarráð geta sjaldan nýtt rýmin.

- Salarleiga mun mögulega dragast saman, sérstaklega þegar um ræðir stóra viðburði.

- Útleiga á sölum fyrir viðburði í Merkinesi mun leggjast af.

- Tekjur Hljómahallar dragast saman.

- Færri staðir fyrir íbúa og aðra notendur til að leigja sali í Reykjanesbæ og nágrenni.

- Erfitt að samnýta starfsfólk – sérhæfni.

- Hljóðvist á milli bókasafns og annarrar starfsemi.

- Tónlistarskólinn getur ekki stækkað og komið á móts við biðlista í ört stækkandi bæjarfélagi.

- Ferðamenn hætta að koma á Rokksafnið.

- Missa þennan segul – að fólk komi inn í bæinn til að fara í Hljómahöllina og á Rokksafnið.

- Rokksafnið muni leggjast af í núverandi mynd.

- Munir sem hafa verið gefnir Rokksafni lendi á vergangi eða fara í geymslur.

Tækifæri:

- Samnýting á kaffistofu, sölum, sýningarrými, þrifum og búnaði.

- Sameiginleg markaðssetning fyrir uppákomur og viðburðir.

Rokksafn Íslands.
Rokksafn Íslands. Ljósmynd/hljomaholl.is

Fleiri bílastæði en hávaði frá tónlistarskólanum

Í annarri SVÓT-greiningu sem Guðrún gerði er litið til styrkleika, veikleika, ógnana og tækifæra bókasafnsins við að flytja í Hljómahöll. Þar kemur fram:

Styrkleikar:

- Fleiri menningarstofnanir á sama stað.

- Fleiri bílastæði en núverandi staðsetning.

- Miðsvæðis og nálægt samgönguæðum.

- Undir sama sviði og Hljómahöllin.

Veikleikar:

- Ekki verið að uppfylla samþykkta framtíðarsýn bókasafnsins.

- Ekki verið að uppfylla húsnæðisþörf nútímabókasafns.

- Ekki fyrsti kostur forstöðumanns.

- Mikil nýting á stofum og sölum e.h. af tónlistarskólanum og því mögulegir árekstrar fyrir sýningar og viðburði bókasafns.

- Fækka þyrfti bókum eða geyma annars staðar.

- Flæði á milli hæða mögulega óljóst fyrir gesti (þar sem bókasafn er staðsett).

Ógnanir:

- Hávaði frá tónlistarskóla.

- Hávaði vegna tónleika og hljóðprufum fyrir tónleika.

- Myrkur, lítið um glugga inn í mitt húsnæðið sem nú hýsir Rokksafnið.

- Lítil tækifæri á að útvíkka starfsemina.

- Erfitt að sjá fyrir gott flæði á milli hæða í bókasafninu

- Takmarkað rými til að þróast frekar.

- Þrengir að núverandi starfsemi.

Tækifæri:

- Möguleiki á góðu og björtu barnasvæði í Merkinesi.

- Möguleiki á að vera með skjólgott gróðursvæði á lóð við Merkines/Stapa.

- Nýta fablab með Stapaskóla – halda tækniviðburði þar í stað þess að hafa pláss fyrir það inni á safninu.

- Stækka almannarýmið.

- Samnýta starfsmannaaðstöðu, tæknirými og búnað með Hljómahöllinni.

- Undir sama sviði.

- Möguleikar á sameiginlegri markaðssetningu.

Björgvin Halldórsson er einn þeirra tónlistarmanna sem hafa lánað Rokksafni …
Björgvin Halldórsson er einn þeirra tónlistarmanna sem hafa lánað Rokksafni Íslands muni. Á myndinni leikur hann á flygil vinar síns, Ragnars Bjarnasonar, í rokksafninu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Telur ómögulegt að byggja nýtt bókasafn

Í þriðju SVÓT-greiningunni er skoðaður kostur þess að búa til nýtt bókasafn og samkeppni um nýbyggingu. Í skýrslunni sem Guðný Birna gerir tekur hún fram að hún telji að Reykjanesbær geti ekki framkvæmt þá leið að byggja nýtt húsnæði í ljósi mikla fjárfestinga bæjarins á þessu ári.

Styrkleikar:

- Hægt að svara framtíðarþörfum í húsnæði fyrir bókasafnið.

- Bókasafnið færist nær samþykktri framtíðarsýn.

Veikleikar:

- Bókasafnið þarf að vera lengur í núverandi húsnæði.

Ógnanir:

- Stjórnsýslan þarf pláss fljótt.

- Uppbyggingaraðilar vilji ekki breyta áætlunum eða skoða möguleika á finna hentugan stað fyrir bókasafn.

- Staðsetning verði valin út frá húsnæði en ekki samgönguæðum.

- Hönnun verði ekki unnin eftir þörfum íbúa og framtíðarsýn bókasafnsins.

- Fjármagn og forgangsröðun brýnna verkefna í bænum.

Tækifæri:

- Finna hentugt staðarval á uppbyggingarsvæðum og við samgönguæðar.

- Samvinna við uppbyggingaraðila um hönnun á húsnæði.

- Langtímaleiga í stað þess að fjárfesta.

- Skýr framtíðarsýn og húsnæðisþörf Bókasafnsins.

- Aðdráttarafl fyrir nýja íbúa að hafa nútímabókasafn í samfélaginu.

- Fjölbreytt menningarímynd bæjarins.

- Hönnunarsamkeppni ef húsnæði finnst.

- Samráð við íbúa í hönnunarfasanum.

„Vegna mikilla fjárfestinga sveitarfélagsins, vegna kostnaðarsamar uppbyggingar á nýju bókasafni og vegna plássleysis í núverandi húsnæði að Tjarnargötu 12, er ljóst að mati forseta að leið 1 og 3 eru ekki mögulegar og því ljóst að leið 2 verði fyrir valinu, þ.e. að bókasafnið flyti yfir í Hljómahöll,“ skrifar Guðný Birna í sinni skýrslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert