Öryggi neytendans leiðarljós heilbrigðiseftirlits

Heilbrigðiseftirlitið ítrekar að alvarleg mál séu kærð til lögreglu ef …
Heilbrigðiseftirlitið ítrekar að alvarleg mál séu kærð til lögreglu ef ástæða er til. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Ef Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur verður vart við óheilnæm matvæli, eins og í Sóltúni haustið 2023, er ávallt brugðist skjótt við og tryggt að matvælaöryggi sé ekki ógnað og öryggi neytenda sé tryggt, í samræmi við lög og reglur.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem heilbrigðiseftirlitið sendi frá sér á vef Reykjavíkurborgar í kjölfar umræðunnar sem hefur átt sér stað undanfarna daga og snýr meðal annars að verklagi matvælaeftirlitsins. 

Heilbrigðiseftirlitið ítrekar að alvarleg mál séu kærð til lögreglu ef ástæða er til, eins og gert var í tengslum við matvælalagerinn í Sóltúni. 

Öryggi neytenda að leiðarljósi 

Í tilkynningunni segir að eftirlit með matvælafyrirtækjum sé skilvirk og að ávallt sé gripið til viðeigandi aðgerða og matvæli gerð upptæk, eða því fylgt eftir að starfsemi sé takmörkuð eða stöðvuð eftir því sem ástæða er til, með öryggi neytenda að leiðarljósi. 

„Ef matvælafyrirtæki fá slæma niðurstöðu úr eftirliti, eins og 1 eða 2, er ljóst að þau starfa ekki áfram nema að loknum úrbótum sem samþykktar eru af heilbrigðisfulltrúa í eftirliti,“ segir í tilkynningunni. 

Þá segir að upplýsingar um niðurstöður eftirlita séu aðgengilegar á vef heilbrigðiseftirlitsins, þar sem skýrar upplýsingar má fá um þau atriði sem ábótavant er og hægt að kalla eftir viðkomandi eftirlitsskýrslum.

„Aðgengi neytenda að þessum upplýsingum er því afar gott,“ segir í tilkynningunni og bætt við að heilbrigðisfulltrúar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur séu sérfræðingar á sínu sviði sem vinni af fagmennsku að erfiðum málum.

Til að veita frekari upplýsingar um starfsemi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hefur stofnun tekið saman nokkur grunnatriði sem er beint að fjölmiðlum og áhugafólki. Þessar upplýsingar má lesa hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert