Björgunarsveitir á Suðurnesjum hafa verið boðaðar út vegna eldgossins sem hófst fyrr í kvöld. Tiltölulega rólegt er hjá björgunarsveitarfólki enn sem komið er, að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.
Sveitirnar hafi fyrst og fremst verið kallaðar út til þess að aðstoða við rýmingu á svæðinu. Bæði Grindavíkurbær og Bláa lónið hafa þegar verið rýmd.
„Svona til þess að byrja með þegar svona atburðir eru að fara af stað, þá er þetta fyrst og fremst að vera til taks, ef á þarf að halda,“ segir Jón Þór í samtali við mbl.is.