Búið er að rýma Bláa lónið en eldgos hófst á Sundhnúkagígaröðinni klukkan 20.23 í kvöld.
Þetta staðfestir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu hjá Bláa lóninu, í samtali við mbl.is.
Áætlað er að um 700-800 gestir og starfsmenn hafi verið á Bláa lóninu þegar eldgosið hófst. Helga segir að rýmingin hafi gengið vel fyrir sig. Hún þakkar gestunum fyrir góðan skilning á aðstæðum og starfsmönnum fyrir fljót og fagleg vinnubrögð.
Eldgosið er staðsett á Sunhnúkagígaröðinni á milli Hagafells og Stóra-Skógfells, fremur nær Stóra-Skógfelli, á svipuðum stað og gosið 8. febrúar.