Páll Valur Björnsson, fyrrverandi alþingismaður og íbúi í Grindavík, segist láta hverjum degi nægja sína þjáningu og veltir sér ekki of mikið upp úr greiningum vísindamanna sem segja að annaðhvort geti eldgos hafist á morgun eða í haust. Hann og fjölskylda hans ætla að halda sínu striki eins og staðan er í dag og sækja um að ríkið kaupi eign þeirra í Grindavík.
Fjölskyldan hefur komið sér vel fyrir í leiguíbúð í Reykjavík og stefnir á að vera um kyrrt í fyrirsjáanlegri framtíð.
„Ég er ekkert að velta mér upp úr þessu. Ég fer örugglega í gegnum þessi uppkaup á húsinu mínu og svo sér maður bara til. Ég hef farið nokkrum sinnum til Grindavíkur til að sækja búslóðina og ég verð að segja eins og er, maður er í hálfgerðu sjokki þegar maður keyrir í gegnum bæinn,“ segir Páll og vísar þar til allra þeirra sprungna og eyðileggingar sem er að finna innan Grindavíkurbæjar. „Það er ljóst að þetta er í gangi og eldfjallafræðingarnir segja flestir að þetta sé bara rétt að byrja, þó eitthvað geti liðið á milli atburða,“ segir Páll.
Páll bendir á að jarðskjálftavirkni hafi verið sunnan og vestan við Þorbjörn og segir stóru spurninguna alltaf vera, hvar kemur upp eldgos næst?
„Við sáum hvað gerðist þegar þetta kom upp fyrir innan varnargarðana. Og það eru sprungur út um allt í Grindavík. Ég sat nú í bæjarstjórninni í Grindavík þegar þetta byrjaði allt saman. Við fengum uppteiknaðar ýmsar sviðsmyndir og ég man nú ekki eftir þeirri sviðsmynd að það væru þrjár sprungur beint undir Hópsskóla. Ég fékk nú bara létt hjartaflökt þegar ég sá það,“ segir Páll.
Spurður að því hvaða áhrif ólíkar spár jarðvísindamanna hafi á Grindvíkinga segir Páll þær skapa mikla umræðu á samfélagsmiðlum og að fólk hreinlega klóri sér í kollinum yfir þeim. Bendir hann á Grindvíkingar hafi þegar þurft að takast á við stórar áskoranir og að ekki bæti ástandið að upplýsingarnar virðist óreiðukenndar.
„Einhverjir tóku þessum spám, um að kvikuinnstreyminu yrði lokið í sumar, sem fagnaðarfréttum. Ég hef ekki trú á því að þessu sé lokið, en ég er nú enginn sérfræðingur í þessu samt. Þetta er búið að vera ofboðslega erfiður tími andlega og maður verður að halda sér niðri á jörðinni. Vonandi lýkur þessu auðvitað sem fyrst, en ég hef ekki trú á því,“ segir Páll.