Fylgst er náið með háspennulínum sem liggja frá orkuverinu í Svartsengi en hraun rennur nú í átt að þeim.
Þetta segir Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri framleiðslu hjá HS Orku, í samtali við mbl.is.
Ef Svartsengislínan slær út þá þarf að taka niður tvær raforkuframleiðsluvélar hjá orkuverinu í Svartsengi. Það yrði ekki vandamál fyrir íbúa í byggð en gæti þýtt skerðingar fyrir stórnotendur raforku, að hans sögn.
Eins og mbl.is hefur greint frá þá eru innan við tveir kílómetrar í að ein hrauntungan sem myndaðist úr gossprungunni nái að heitavatnslögninni og háspennulínunum. Var það Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, sem sagði það í samtali við mbl.is.
„En við erum búin að fjárfesta í neyðarvélum þannig við getum haldið stöðvarafmagni á orkuverinu og þannig framleitt heitt vatn og dælt í. Þannig það mun ekki hafa nein áhrif á vatnsafhendingar,“ segir hann.
Hann segir að það séu aðrar háspennulínur klárar til tenginga á staðnum ef að núverandi Svartsengislína bregst.
Búið er að grafa heitavatnslögnina frá Svartsengi að Njarðvík smávegis niður í jörð og moka jarðvegsfyllingu yfir hana á löngum kafla. Heitavatnslögnin er á sama stað og háspennulínurnar.
„Plönin okkar gera ráð fyrir að hraun geti runnið þar yfir og lögnin verði heil undir. Það var sett töluvert af jarðvegi yfir og þjappað vel – mynduð eins konar hraunbrú,“ segir Kristinn.