Hermann Nökkvi Gunnarsson
Búið er að grafa heitavatnslögnina frá Svartsengi að Njarðvík smávegis niður í jörð og moka jarðvegsfyllingu yfir hana á löngum kafla.
„Plönin okkar gera ráð fyrir að hraun geti runnið þar yfir og lögnin verði heil undir. Það var sett töluvert af jarðvegi yfir og þjappað vel – mynduð eins konar hraunbrú,“ segir Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri framleiðslu hjá HS Orku, í samtali við mbl.is.
Eins og mbl.is hefur greint frá þá eru innan við tveir kílómetrar í að ein hrauntungan sem myndaðist úr gossprungunni nái að heitavatnslögninni. Var það Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, sem sagði það í samtali við mbl.is.
Kristinn segir lögnina hafa verið gerða úr sterku stáli sem eigi að þola mjög mikið.
„Okkar plön eru að hún haldi, en hafandi sagt það þá er margt sem við erum að gera sem hefur aldrei verið gert áður þannig það er ekki hægt að fullyrða eitt né neitt,“ segir Kristinn.
Hann segir að virkjunin í Svartsengi hafi verið tóm þegar gosið hófst og því hafi ekki þurft að rýma. Starfsemi virkjunarinnar er í fullum gangi og treystir Kristinn á varnargarðana, ef til átekta kemur.