Hraun rennur hratt í átt að Grindavíkurvegi

mbl.is/Eyþór

Tvær hrauntungur hafa myndast úr þeirri gossprungu sem opnaðist í kvöld. Rennur hraun nú hratt í átt að Grindavíkurvegi við Svartsengi og í átt að varnargarði austan við Grindavík.

Ekki þykir ólíklegt að sá varnargarður leiði hraunið yfir Suðurstrandarveg. 

Þetta segir Víðir Reynisson, yf­ir­lög­regluþjónn al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra, í samtali við mbl.is.

Eldgosið braust út kl. 20.23 í kvöld.
Eldgosið braust út kl. 20.23 í kvöld. mbl.is/Eyþór

Örugg að svo stöddu

Varnargarðurinn sem tekur á móti hraunflæðinu fljótlega er kominn í fulla hæð og eru líkur á að hann leiði hraunið suður í átt að Suðurstrandarveginum.

Ef hraunflæði heldur áfram í einhvern tíma þá gæti hraun runnið yfir Suðurstrandarveg.

Víðir segir að hús í Grindavík séu talin örugg að svo stöddu vegna varnargarðsins. 

Áætluð lega sprungunnar og rennsli hrauns úr henni.
Áætluð lega sprungunnar og rennsli hrauns úr henni.

Innan við kílómetra frá Grindavíkurvegi

Önnur hrauntunga rennur í átt að Grindavíkurvegi og eru 900 metrar í að hraunið nái veginum að sögn Víðis. Ef hraunið nær veginum fer það líklega yfir veginn á svipuðum slóðum og þegar hraun rann yfir veginn 8. febrúar. 

Aðeins kílómetri er frá veginum að Njarðvíkuræðinni, heitavatnslögninni sem sér Suðurnesjum fyrir heitu vatni.

Víðir segir að búið sé að gera allt sem menn töldu að hægt væri að gera til að tryggja lögnina, eins og til dæmis að fergja hana.

Víðir Reynisson, yf­ir­lög­regluþjónn al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra.
Víðir Reynisson, yf­ir­lög­regluþjónn al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra. mbl.is/Óttar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert