Búið er að verja miklum fjárhæðum í mathöll sem til stóð að opna að Vesturgötu 2. Miklar framkvæmdir höfðu farið fram í húsinu og segja kunnugir að hundruðum milljóna hafi verið varið í aðbúnað til veitingareksturs í húsinu.
Eignin var leigð í nafni Vietnam Restaurant ehf. sem er í eigu Quang Le eða Davíðs Viðarssonar. Búið var að stofna rekstarfélag sem til stóð að nýta undir reksturinn en óvíst hvort því verði komið í gagnið.
Líkt og mbl.is hefur greint frá hefur eigandi húsnæðisins þegar sagt upp leigusamningi vegna vanefnda. Þá hefur mbl.is heimildir fyrir því að birgi hafi hætt afhendingu tækja fyrir nokkrum mánuðum vegna skuldar. Hvað sem því líður fer nærri að mestum hluta framkvæmda hafi verið lokið í húsinu.
Talsmaður Fjelagsins eignarhaldsfélags ehf. hefur sagt að þegar séu hafnar viðræður við áhugasama leigjendur.
Árið 2021 var tilkynnt um að til stæði að opna nýja mathöll í húsinu. Seinlega hefur gengið að opna mathöllina, en lagt hefur verið í framkvæmdir sem ætla má að kosti hundruð milljóna króna að sögn kunnugra í matvælageiranum.
Fólu þær meðal annars í sér að koma upp 14 matarbásum í húsinu. Hver þeirra er með eldunaraðstöðu auk þess sem búið er koma fyrir pizzaofn inni í húsinu.
Eins og sjá má af myndum er verkið langt gengið og samkvæmt heimildum mbl.is var hugmyndin að selja hvern bás til veitingastaða til þeirra sem vildu hefja þar rekstur. Einn viðmælandi mbl.is fullyrti að áætlanir hafi verið uppi um að opna mathöllina þann 1. júní næstkomandi.
Athygli vekur að samkvæmt húsaleigulögum á allt naglfast að fylgja með eigninni þegar leigjandi hverfur á brott. Sú spurning vaknar því hvort Fjélagið - eignarhaldsfélag hf. sem á húseignina eignist sjálfkrafa allan þann búnað sem nú er til staðar í húsinu.
Eftir því sem mbl.is kemst næst er eini staðurinn sem hafði staðfest áætlanir um að opna í húsinu verið undir merkjum Wok on. Þá hafi viðskiptamaður af víetnömskum uppruna tryggt sér bás en hann er jafnframt einn þeirra sem nú er í haldi lögreglu. Eins og fram hefur komið keypti Quang Le Wok on formlega af viðskiptafélaga sínum Kristján Ólafi Sigríðarsyni í síðasta mánuði. Samkvæmt heimildum mbl.is var sá gjörningur þó tryggður fyrir nokkrum mánuðum.