Íslenskan í hættu sem aðaltungumál

Bragi Valdimar Skúlason segir rosalega miklar tilfinningar tengdar málinu okkar …
Bragi Valdimar Skúlason segir rosalega miklar tilfinningar tengdar málinu okkar sem á undir högg að sækja vegna mikilla tækniframfara og annarra þátta. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er allt í lagi að vera pínu svartsýnn en samt helst ekki neikvæður. Um leið og áhrif erlendra tungumála eru mikil og nálæg þá hefur íslenskan aldrei verið meira notuð en í dag; það eru allir að tjá sig, að vísu með misjöfnum hætti og á „misgóðri“ íslensku. En hvað sem því líður verðum við að vera dugleg að hvetja fólk til að nýta tungumálið og vanda sig. Íslenska mun alltaf verða til – gervigreindin er búin að læra hana.“

Þetta segir Bragi Valdimar Skúlason, spurður um stöðu íslenskrar tungu sem honum er svo kær. 

„Annars held ég í raun og veru að máltæknin komi til með að bjarga örtungumálum. Vel má samt vera að íslenskan sé í hættu sem aðaltungumál okkar; ég skal svara því eftir 20 til 30 ár. Og þá á ensku,“ segir hann. 

Bragi Valdimar viðurkennir að hann fórni höndum inn á milli enda sé tungumálið að breytast mjög hratt. Það sem þótti slangur og jafnvel vond íslenska þegar hann var ungur sé nú í einhverjum tilvikum orðið gullaldarmál.

Maður á að leika sér að málinu

Er það ekki eðli tungumála að vera lifandi?

„Jú, algjörlega. Málkerfið virkar, það tekur á móti og bregst við breytingunum. Við höfum oft vakið athygli á íslensku í auglýsingabransanum, hvort sem það er fyrir fyrirtæki eins og Blush eða menningarmálaráðuneytið.

Sjálfur hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að maður eigi að leika sér að tungumálinu. Það er nefnilega ekki svo heilagt að ekki megi eiga við það. Ég held líka að almenn viðhorfsbreyting hafi orðið í þeim efnum enda gengur ekki að hafa tungumálið alltaf eins þegar allt annað breytist svo hratt.

Nánar er rætt við Braga Valdimar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka