Búast er við að kraftur komist í kjaraviðræður eftir helgina og fram eftir næstu viku en þá eru aðeins um tvær vikur til stefnu þar til meginþorri kjarasamninga á opinbera markaðinum, hjá ríki og sveitarfélögum, losnar þann 31. mars. Samningar sveitarfélaganna við Kennarasamband Íslands renna þó ekki út fyrr en í lok maí.
Samningamenn opinberu félaganna í BSRB og BHM og stéttarfélaga utan heildarsamtaka hafa að undanförnu rýnt rækilega í nýju kjarasamningana á almenna markaðinum og þá launastefnu sem þar er mörkuð og mátað hana við kröfur og áherslur sinna félaga.
Viðræður vegna nokkurrra kjarasamninga sem runnu út í lok janúar hafa ekki verið til lykta leiddar. Það á m.a. við um samninga Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja við Samtök atvinnulífsins og kjarasamninga stéttarfélaga í BSRB við SA vegna starfsmanna hjá opnberum hlutafélögum. Þessum viðræðum hefur ekki verið vísað til ríkissáttasemjara en hinsvegar hefur Læknafélag Íslands vísað viðræðum um endurnýjun á kjarasamningi LÍ við ríkið til ríkissáttasemjara en samningur lækna gildir til næstu mánaðamóta.
Ari Skúlason, formaður SSF, segir félagið hafa fylgst með á hliðarlínunni að undanförnu og eru fulltrúar félagsins núna að skoða þá samninga sem gerðir hafa verið. „Það skiptir miklu fyrir okkur í þessu sambandi að tími hreinna krónutöluhækkana er liðinn í bili og að það er ekki lengur verið að vinna markvisst að grófri mismunun gagnvart fólki með hærri laun. Þessir samningar eru því mikil framför frá þeirri krónutölubylgju sem hefur ríkt og ruglað öll launahlutföll á markaðnum verulega,“ segir Ari.
Hann segir í svari til blaðsins að félagið muni skoða kostnaðarmat þeirra samninga sem gerðir hafa verið „og við eigum ýmislegt í pokahorninu frá síðustu tveimur samningalotum sem ekki hefur komist að. Það hefur hallað verulega á okkar hóp á tímabilinu frá því að lífskjarasamningurinn var gerður og okkur vantar rúm 8% upp á að ná upp í þá meðalhækkun á tímabilinu sem launavísitalan sýnir. Við þurfum því að spyrja okkur ýmissa spurninga um hvernig við ætlum að legga framhaldið upp og reyna að finna bestu svör við þeim spurningum,“ segir Ari.
Sameyki er stærsta aðildarfélagið innan BSRB og gerir alls 17 kjarasamninga. Fyrstu samningar félagsins losnuðu í janúar og febrúar. Semur félagið við SA fyrir félagsmenn sem starfa hjá Isavia, í Fríhöfninni, hjá Orkuveitu Reykjavíkur og RARIK, en samningar þeirra losnuðu í lok janúar.
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, segir að eftir að samningar lágu fyrir á almenna markaðinum komist væntanlega meiri kraftur í viðræðurnar við SA. „Við sjáum svo sem launamódelið og erum að kafa ofan í hvaða áhrifaþættir eru í þessum samningum. Þetta eru ítarleg plögg um ýmislegt og við höfum verið að kynna okkur hvað er í þeim. Við erum að skoða útfærsluna á launaliðnum, hvernig hann virkar í þeim samningum sem hafa verið gerðir og hvort þetta sé upplegg sem við getum notast við í okkar viðræðum,“ segir hann.
Þórarinn segir að samtölin við ríkið, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin vegna opinberu samninganna sem losna 31. mars séu þegar byrjuð. „Þar erum við að fara yfir einstaka þætti sem þurfa lagfæringa við, skoða saman einstakar greinar og líka nýjar hugmyndir að útfærslu réttindamála í kjarasamningnum. Við erum ekki farin að tala neitt að gagni um launabreytingamódelið sjálft, það bíður aðeins betri tíma,“ segir hann.
Spurður hvort félagið sé farið að íhuga að vísa til sáttameðferðar viðræðunum við SA vegna samninganna sem eru útrunnir segir Þórarinn að ekki sé komið að því. „En við væntum þess að þær hreyfist bæði fljótt og vel og það verði góður gangur í því.“