Tekur áskorunum um framboð mjög alvarlega

Vænta má tíðinda frá Jóni um eða fyrir páskana.
Vænta má tíðinda frá Jóni um eða fyrir páskana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Gnarr, leikari og fyrrverandi borgarstjóri, íhugar hvort hann eigi að láta til skara skríða og bjóða sig fram til forseta Íslands.

„Ég mun nú ekki tilkynna neitt á næstu dögum. Ég hef verið að miða við að tjá mig um þetta um páskana - eða gaf mér tíma til páska. Ég ligg enn þá undir feldi, eins og sagt er,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

Íhugar framboð í fríinu

Hann segir margt útskýra þann tíma sem hann gefur sér til að hugleiða málið, eins og til dæmis það að hann er búinn að vera að undanförnu á Akureyri þar sem að hann tekur þátt í uppsetningu Leikfélags Akureyrar á verkinu And Björk of course.

Síðasta sýningin á Akureyri verður sýnd í kvöld og þá er hann kominn í tveggja vikna frí.

„Það var svona pælingin að reyna nota það til að melta þetta. Mér þykir mjög vænt um að fá alls konar hvatningar og að fólk sé að pæla í mér í þessu samhengi, og tek það bara mjög alvarlega.“

Ekki léttvæg ákvörðun

Jón segir að ákvörðun um framboð sé eitthvað sem hann muni skoða mjög vandlega með hliðsjón af fjölskyldu sinni, starfsvettvangi og verkefnum. Það yrði mikil kúvending á hans núverandi lífi að fara í framboð.

„Ég vil bara hugsa þetta mjög vel. Þetta er ekki léttvæg ákvörðun,“ segir hann.

Mun tilkynna þegar hann kemst að niðurstöðu

Jón hefur áður farið í framboð og segir að í ljósi þeirrar reynslu skilji hann vel hvað hann væri að fara út í ef hann myndi bjóða sig fram. Hann vill ekki sitja uppi einn daginn og líða eins og hann hafi tekið ranga ákvörðun, hvort sem hann ákveði að bjóða sig fram eða ekki.

Má vænta tíðinda frá þér um páska?

„Já ég sé enga ástæðu til þess, ef ég er á endanum búinn að komast að einhverri niðurstöðu, að sitja á henni,“ segir Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert