Á undanförnum árum hefur greiningardeild ríkislögreglustjóra fengið upplýsingar frá erlendum samstarfsaðilum um einstaklinga sem tengjast alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum og hafa sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi. Hryðjuverkaógn hefur aukist í nágrannaríkjunum skv. áhættumati samstarfsríkja og alþjóðleg hryðjuverkasamtök hafa opinberlega hvatt til hryðjuverkaárása í Evrópu.
Þetta kemur fram í umsögn ríkislögreglustjóra um frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á lögreglulögum, en markmiðið með frumvarpinu er m.a. að skýra og styrkja heimildir lögreglu til aðgerða í þágu afbrotavarna.
Í nýlegum Dagmálaþætti Morgunblaðsins var rætt við Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra um útlendingamál og m.a. rifjað upp að nýlega hefði liðsmaður ISIS-hryðjuverkasamtakanna verið handtekinn á Akureyri og fluttur af landi brott ásamt fjölskyldu sinni.
Hvort fullvissa væri fyrir því að ekki leyndust fleiri slíkir hér á landi, svaraði Guðrún þannig: „Við höfum ekki fullvissu um það.“
Í frumvarpinu er m.a. kveðið á um heimildir lögreglu til að nýta eigin upplýsingar til greiningar sem og upplýsingar sem hún aflar, auk þess sem ráðherra er veitt heimild til að kveða nánar á um þær aðgerðir sem beita má í þágu afbrotavarna. Heimilað verður að hafa eftirlit með einstaklingum sem hafa tengsl við skipulögð brotasamtök eða sem sérgreind hætta stafar af fyrir öryggi ríkisins eða almennings.
Þá er frumvarpinu ætlað að styrkja og efla eftirlit með störfum lögreglu sem ríkislögreglustjóri segir mikilvægt sem og að þau séu unnin með gegnsæjum hætti, að nauðsynlegt aðhald sé veitt og trausti til lögreglu viðhaldið.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.