350 metrar í Suðurstrandarveg

Bryndís segir rennslið vera nokkuð hægt og ómögulegt að segja …
Bryndís segir rennslið vera nokkuð hægt og ómögulegt að segja til um það hvort hraunið nái Suðurstandarveginum í dag. mbl.is/Eyþór

Önnur hrauntungan renn­ur meðfram varn­ar­görðum aust­an við Grinda­vík og vantar nú aðeins 350 metra í að hraunrennslið nái að Suður­strand­ar­vegi.

Þetta segir Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Hún er enn þá á hreyfingu, svolítið hægar en í morgun en það getur líka verið út af landslaginu. Hún hefur verið að safnast fyrir í hrauntjörn þannig það er kannski aðeins að hægja á þessu. En það er samt ágætis flæði þarna enn þá skilst mér,“ segir Bryndís.

Kort/mbl.is

Runnið 150 metra á síðustu klukkutímum

Hún segir rennslið vera nokkuð hægt og ómögulegt að segja til um það hvort hraunið nái Suðurstrandarvegi í dag.

Á ellefta tímanum í dag þá voru tæpir 500 metrar á milli hrauntungurnar og Suðurstrandarvegsins, samkvæmt Bergþóru Krist­ins­dótt­ur, verk­fræðingi hjá Vega­gerðinni. Hraunið hefur því runnið um 150 metra í átt að veginum á síðustu 4-5 klukkutímum.

Skömmu eft­ir miðnætti fór hraun yfir Grinda­vík­ur­veg og stefndi í átt að heita­vatns­lögn­inni frá Svartsengi. Lít­il hreyf­ing hef­ur verið á þeirri hrauntungu síðan í nótt og er hraun nú um 200 metra frá lögn­inni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert