Aðeins hefur dregið úr krafti eldgossins og sömuleiðis rennsli hraunsins til bæði suðurs og vesturs, frá því að eldsumbrotin hófust á níunda tímanum í kvöld. Þetta segir Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Brennisteinsmengun mælist mikil í Grindavík eða um 1.700 µg/m³. Vindáttin beinir menguninni suður á sjó.
Tvær hrauntungur renna frá gossprungunni sem er við Sundhnúkagígaröðina. Sú nyrðri teygir sig meðfram varnargörðunum við Svartsengi og í áttina að Njarðvíkuræðinni. Aðspurður kveðst Bjarki ekki vera með upplýsingar um hve langt væri á milli lagnarinnar og hraunjaðarsins.
Syðri hrauntungan rennur í átt til Grindavíkur og óttast jarðvísindamenn að hraunið fari hugsanlega út í sjó. Að sögn Bjarka hefur þó hægst þónokkuð á rennslinu til suðurs. Lítur nú út fyrir að hraunpollur hafi myndast við varnargarðana norðan Grindavíkur.
Þá virðast allir varnargarðar halda en hraun hefur hvergi komist yfir.
Ef þetta eldgos hagar sér eins og síðustu þrjú eldgos á Reykjanesskaga mun draga verulega úr krafti þess á næstu klukkustundum, segir Bjarki.