Áfram töluvert hraunrennsli

Hraun úr norðurtungunni rennur yfir Grindavíkurveg. Í bakgrunni sést í …
Hraun úr norðurtungunni rennur yfir Grindavíkurveg. Í bakgrunni sést í Svartsengi á bak við varnargarða sem voru reistir í kringum orkuverið og Bláa lónið. mbl.is/Hörður Kristleifsson

„Mikil strókavirkni var fram að miðnætti, en það dró úr virkninni þegar leið á nóttina. Áfram er samt töluvert hraunrennsli,“ segir í nýjustu Facebook-færslu Veðurstofu Íslands.

Hraunið norðan við Svartsengi er áfram í um 250 metra fjarlægð frá Njarðvíkuræð, sem flytur heitt vatn frá Svartsengi til Reykjanesbæjar. 

Eldgosið er staðsett á milli Hagafells og Stóra-Skógfells en sunnan við Hagafell hefur hraun runnið við hlið varnargarðs. Þar stöðvaðist rennslið um tíma og myndaði hrauntjörn.

Hraun er þó aftur byrjað að flæða í suðaustur í átt að Suðurstrandarvegi og er í um 750 metra fjarlægð frá honum.

Uppfært 07:00:

Áður sagði að hraunið væri í um 25 metra fjarlægð frá Njarðvíkuræð. Hið rétta er að hraun er í 250 metra fjarlægð. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert