Allur rekstur með eðlilegum hætti

Raflínur HS Orku á Reykjanesi.
Raflínur HS Orku á Reykjanesi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allur rekstur HS Orku er með eðlilegum hætti og lagnir óraskaðar. 

Þetta kemur fram í Facebook-færslu HS Orku. 

Er eldgosið hófst í gærkvöldi flæddi hraun bæði til norðurs í átt til Grindavíkur og suðurs, í átt að innviðum sem liggja frá orkuverinu í Svartsengi.

Hrauntungan rann yfir Grindavíkurveg í nótt og um tíma stefndi í að hraunrennslið næði að háspennumöstrum Svartsengislínu og Njarðvíkuræðinni, sem fæðir Reykjanesbæ með heitu vatni frá Svartsengi.

Hraunjaðarinn virðist nú vera að storkna en hann er nú í um 250 metra fjarlægð frá möstrum og lögnum.

Neyðarstjórn að störfum

Þá segir í færslunni að búið var að fergja þann hluta Njarðvíkuræðarinnar þar sem talin var mest hætta á að hraun rynni en hraunflæðið í gær og nótt var með svipuðu sniði og í febrúargosinu.

Einnig hefur Landsnet unnið að mikilvægum vörnum á háspennumöstrum sínum við Svartsengi undanfarnar vikur.

„Neyðarstjórn HS Orku er að störfum og vandlega er fylgst með framvindu gossins. Starfsmenn orkuveranna eru í viðbragðsstöðu og haga rekstri í samræmi við aðstæður hverju sinni,“ segir í færslunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert