Blóðgjöfin sem bjargaði hundslífi

Hetjan Húgó, til vinstri og Erin til hægri sem er …
Hetjan Húgó, til vinstri og Erin til hægri sem er öllu skárri eftir blóðgjöf frá Húgó. Samsett mynd

Ekki er algengt að ráðast í blóðgjafir milli dýra að sögn Elfu Ágústsdóttur, dýralæknis og eiganda Dýraspítalans Lögmannshlíð á Akureyri. 

Rakkinn Húgó kom tíkinni Erin til bjargar fyrr í vikunni með lífsnauðsynlegri blóðgjöf.

Elfa útskýrði fyrir forvitnum blaðamanni hvað fólst í aðgerðinni sem hún og hennar teymi unnu saman að. 

Þriggja ára labradortíkin Erin veiktist skyndilega um daginn og þurfti á stórri aðgerð að halda vegna bráðasýkingar í legi og rofi í æðum með miklum blæðingum út í kviðarhol. Þá voru góð ráð dýr þegar Húgó gaf henni 400 ml af blóði sem bjargaði lífi hennar.

Þurftu að framkvæma blóðgjöfina á staðnum

Er þetta algeng aðgerð?

„Það er nú kannski ekki algengt og við erum ekki mikið í þessum aðgerðum á dýrum,“ segir hún og að þau séu vanalegast ekki á þeim stað að þurfa blóðgjöf, þó það komi fyrir.

„Í þessu tilfelli og sambærilegum þar sem að dýrið hefur misst mikið blóð áður en að aðgerðin er framkvæmd kemur til þess að dýralæknar þurfi að hóa í hund og biðja eigandann um að leyfa hundinum að gefa blóð,“ segir hún.

Þá segir hún þau ekki búa yfir búnaði til þess að geyma blóð eins og í blóðbönkum, þar sem að mannskepnan gefur blóð. Gjöfin er því framkvæmd á staðnum þar sem að blóðið er tekið í blóðtökupoka með andstorknunarefni, svo er blóðið flutt nánast jafnóðum úr pokanum yfir í hitt dýrið.

„Þetta er í rauninni bara gert á staðnum hjá dýralæknum.“

Hetjan Húgó hlaut bein í verðlaun

Var Húgó svæfður?

„Nei, það er nefnilega af því að tíkin (Erin) var í svo rosalega alvarlegu ástandi. Þess vegna var Húgó svolítil hetja greyið,“ segir Elfa og bendir á að ekki var hægt að gefa honum róandi, þar sem að efnið hefði ratað beint í Erin, sem hún mátti alls ekki við, enda nýkomin úr svæfingu og aðgerð þar sem að þurfti að opna kviðarholið til þess að fjarlægja leg og eggjastokk.  

„Húgó, ræfillinn... hann er nú yndislega góður hundur, en auðvitað var hann svolítið hræddur þegar það þurfti að halda honum í smástund meðan maður setti uppi hjá honum nál og lét leka í þennan poka.“

„Hann náði sér þó alveg í hvelli og var þarna að naga bein eftir tvær mínútur. Það er nú kannski eini gallinn að það er ekkert hægt að tala við Húgó. Maður gaf honum svo bein og bað hann afsökunar á þessu,“ segir hún og hlær, en segir að allt hefði gengið vel fyrir sig:

„Um leið og tíkin fékk blóðið þá bara gerbreyttist hún og fór á fætur og fór út að pissa.“

Þetta var svona fljótt að gerast?

„Já, hana vantaði svo svakalega blóð. Við vorum búin að gefa henni vökva, en það dugði bara ekkert til. Rauðu blóðkornin voru komin niður úr öllu valdi,“ segir hún og að nú sé Erin í miklu bataferli að byggja rólega upp sinn eigin blóðhag.

„Það gengur mjög vel, hún er komin heim og fer vel fram.“

Veikindi Erinar óvenjuleg

Elfa segir að ástand Erinar hafi komið heldur flatt upp á fólk, enda Erin einungis þriggja ára og ekki algengt að hundar á hennar aldri þurfi að fara í svona stóra aðgerð.

„Hún var bara svona rosalega óheppin að fá bráða sýkingu og eitrunarástand í legið,“ segir hún og að í kjölfar sýkingarinnar hafi hún fengið drep í legvegginn og æðar byrjuðu að rofna.

„Við trúðum þessu varla,“ segir hún sökum aldurs Erinar, en að legbólga sé ansi algeng hjá tíkum eldri en átta ára. „Þá er oftast bara gröftur í leginu og legið fjarlægt, þar er ekki svona alvarlegt blæðingarástand út í kviðarholi.“

Minni hundur hefði ekki dugað til

Nú spyr sá sem ekki veit... eru hundar með sérstaka blóðflokka og skiptir það máli þegar kemur að blóðgjöfinni?

„Já, já, þeir eru það eins og við. Mig minnir að hundar séu með yfir átján mismunandi blóðflokka, en þeir eru þannig að ef þú gefur í bara eitt til tvo skipti þarf ekkert að kanna það neitt frekar,“ segir hún og að ef ólíklega kæmi upp sú staða að þú þyrftir að gefa dýri síendurtekið blóð þá þyrfti að kanna blóðflokkinn.

„Dýr eru með marga blóðflokka alveg eins og fólk.“

Var Húgó þá á einhverjum blóðgjafalista eða er einhver slíkur listi til?

„Nei, ekki hjá okkur við hringdum í eigendur Húgó, þau eru í fjölskyldunni minni. Við þekkjum Húgó og hann er stór og hraustur labrador með rosalega gott geðslag. Við þurftum auðvitað að ná upp undir hálfum líter og hann gaf það bara eins og ekkert væri.“

„Við hefðum auðvitað ekki getað tekið þetta úr einhverjum minni hundi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert