Dregið hefur úr virkni gossins

Eldgosið hófst kl. 20.23 í gær.
Eldgosið hófst kl. 20.23 í gær. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Dregið hefur úr virkni eldgossins sem hófst í gærkvöldi milli Hagafells og Stóra-Skógfells. Virkni er nú á þremur stöðum á gossprungunni. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Í tilkynningunni segir að lítil skjálftavirkni hafi mælst á svæðinu það sem af er degi. Mikil strókavirkni hafi verið fram að miðnætti, en virknin dregist hægt saman þegar leið á nóttina.

Nokkuð stöðug virkni hafi verið með deginum, en hún virðist hafa dregist örlítið saman nú síðdegis.

Myndin var tekin á Húsafelli austan við Grindavík í dag …
Myndin var tekin á Húsafelli austan við Grindavík í dag þegar sérfræðingar Veðurstofunnar voru að huga að mælitækjum á staðnum. Á myndinni sést staðsetning hraunjaðarsins kl. 13 í dag, þar sem hann rennur meðfram varnargarðinum. Fjarlægð frá Suðurstrandarvegi til sjávar er um 350 m. Ljósmynd/Veðurstofa Íslands.

Fylgjast grannt með framrás hraunsins

Grannt er fylgst með framrás hrauns þar sem möguleiki er á að hraun renni yfir Suðurstrandarveg og jafnvel til sjávar.

„Sunnan við Hagafell hefur hraun runnið við hlið varnargarðs og stöðvaðist þar um tíma og myndaði tjörn. Hrauntunga sem rann til vesturs virðist hafa stoppað í um 200 m fjarlægð frá Njarðvíkuræðinni. Grannt er fylgst með framrás hraunsins á þessum slóðum vegna þess möguleika að hraun renni yfir Suðurstrandarveg og jafnvel til sjávar,“ segir í tilkynningunni. 

Þar segir enn fremur að framrás hraunsins í átt að Suðurstrandarvegi hafi þó verið hæg í morgun, um 20 metra á klukkustund. 

Framhaldið ræðst af því hvernig kraftur gossins þróast. Samkvæmt upplýsingum frá vettvangi var hraunjaðarinn í um 250 m fjarlægð frá Suðurstrandarvegi kl. 14.40.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert