Ökumenn sem í bríaríi leggja bifreið sinni næturlangt á einkastæðum Röntgen Domus við Egilsgötu 3 þurfa að greiða hátt í tíu þúsund krónur fyrir stæðið. Fyrirtækið skipti nýlega um þjónustufyrirtæki við stæðið og greiða notendur nú gjaldið í gegnum Parka-appið.
Verðið er ekki gefið upp á skiltinu sem nýlega var sett upp, en á vef Parka kemur í ljós að fyrsta klukkustundin kostar 320 krónur og hver klukkustund eftir það 800 krónur.
Röntgen Domus skipti áður við Bílastæðasjóð en Sólveig Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Röntgen Domus, segir að fyrirtækið hafi viljað stýra nýtingu stæðanna betur og tryggja starfsfólki sínu og viðskiptavinum stæði á dagvinnutíma.
Því hafi verið ákveðið að kaupa þjónustu Parka. Áður voru stæðin í gjaldflokki 4 hjá Bílastæðasjóði og kostaði klukkustundin 220 krónur. Var gjaldskylda milli kl. 8 og 16.
„Starfsfólkið okkar þarf að geta lagt í þessi stæði þegar það kemur til vinnu á morgnana. Hér er risið stórt íbúðarhús á horni Snorrabrautar og Egilsgötu og það þarf að bregðast við því. Svo er mikilvægt að hafa stýringu á þessu,“ segir Sólveig og bendir á að stæðin séu á einkalóð Röntgen Domus.
Parka vaktar svæðið með myndavélaeftirliti, þar sem bílnúmeraplötur eru skannaðar á óreglulegum tímum yfir daginn.
„Við erum með eftirlit hjá okkur sem myndar með óreglulegu millibili á stæðinu og berum það saman við skráningar í appinu,“ segir Þorsteinn Guðjónsson framkvæmdastjóri Parka.
Nánar í laugardagsblaði Morgunblaðsins.