Tvær hrauntungur renna úr gossprungunni sem opnaðist á níunda tímanum í kvöld.
Önnur rennur í vestur í átt að Svartsengi, og fer nú yfir Grindavíkurveg, og hin rennur til suðurs í átt að Grindavík. Þar er sveitabærinn Hraun í hættu.
Bærinn er austan Þórkötluhverfis í Grindavík. Hraunið rennur nú meðfram varnargörðunum og stefnir í átt að sveitabænum. Haldist kraftur gossins óbreyttur gæti hraun mögulega náð þar til sjávar.
Nú hefur verið tekin ákvörðun um að reyna að verja bæinn Hraun með uppbyggingu varnargarða. Þetta staðfestir Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna.
Vinnuvélar eru á svæðinu sem hafa verið notaðar við að reisa varnargarða við Grindavík.