Hraun rennur enn í átt að Suðurstrandarvegi

Eldgos á Reykjanesskaga 16. mars 2024.
Eldgos á Reykjanesskaga 16. mars 2024. mbl.is/Eyþór

Hraun rennur áfram meðfram varnargörðum í átt að Suðurstrandarvegi að sögn Einars Bessa Gestssonar, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.

Eld­gosið er staðsett á milli Haga­fells og Stóra-Skóg­fells, en sunn­an við Haga­fell hef­ur hraun runnið við hlið varn­argarðs.

Hefur dregið úr virkni

Það dró verulega úr krafti gossins þegar leið á nóttina og hægðist þá einnig á framrásarhraða hraunsins. Ef virkni heldur áfram getur það gerst að hraunið fari yfir veginn og út í sjó segir Einar. 

Aðspurður um hvort Veðurstofunni þyki líklegt að sú sviðsmynd muni rætast segir hann erfitt að segja til um það núna. 

„Það er verið að safna gögnum á staðnum og meta hegðun þessarar hrauntungu sem er núna að fara í átt að Suðurstrandavegi. Við áttum okkur kannski betur á því eftir því sem við fáum meiri mælingar.“

Ekki er lengur samfelld virkni í sprungunni.

Svipað og síðasta gos

Einar segir gosið haga sér svipað og síðasta gos á Reykjanesskaga. 

„Þessi gos hafa byrjað af dálitlum krafti, það eru fyrstu klukkustundirnar þar sem mesti krafturinn er, mestur hraði á hraunflæðinu og útbreiðsla á hrauninu. Svo þegar dregur úr krafti gossins á sprungunni, eins og fór að gerast þegar leið á nóttina, þá samhliða því dregur úr útbreiðslu hraunsins.“

Helstu verkefni Veðurstofunnar næstu klukkustundir snúa að því að meta og fylgjast með hraunflæðinu og sjá mögulega þróun á svæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert