„Þetta er nú heldur allt saman að róast, báðir endarnir búnir að ná einhvers konar kjörlengd og hreyfast hægt,“ segir Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu, í samtali við mbl.is., einn þeirra sem hafa veg og vanda af varnargörðum á gossvæðunum á Reykjanesskaganum.
Jón Haukur segir hraunið mjakast áfram, „það er alveg flæði inn í þetta en gígarnir eru væntanlega eitthvað að gefa eftir, mér heyrist það svona“, segir jarðverkfræðingurinn og er spurður út í umfang gossins miðað við undanfarin gos á svæðinu.
„Þetta er nú töluvert meira, sérstaklega [gær]kvöldið, þá voru töluverð læti í þessu, mikið efni sem var að koma og hratt,“ svarar hann og segir erfitt að spá um lengd gossins að þessu sinni. „Það verður alla vega ekkert langvinnt í þessum ofsa sem var í gærkvöldi og allt eins líklegt að það klári sig bara hratt og vel eins og hin hafa gert,“ segir Jón Haukur en tekur þó fram að erfitt sé að slá einhverju föstu í þeim efnum.
Jón Haukur er með mannskap og vinnuvélar á svæðinu sem hefur unnið að því að loka götum á hraunvarnargörðunum þar sem vegir liggja í gegnum þá. „Það þarf að fylla í þau og svo opnum við þau aftur ef ekkert kemur. Núna var verið að fylla í göt á Grindavíkurveginum og á Bláalónsveginum langleiðina niður í lón. Svo var bætt aðeins í veggina hérna að austanverðu, millivarnargarðana og við bæinn Hraun.
Jón Haukur segir mannvirki ekki í frekari tjónshættu en orðið er nú þegar. „Grindavíkurvegurinn er náttúrulega kominn undir hraun aftur en þetta er ekki komið að háspennulínunni við Svartsengi og pípuleiðinni en pípan var nú orðin vel varin svo það er eins gott og hægt er að hafa það og línan virðist vel varin, eða alla vega núna,“ segir Jón Haukur Steingrímsson jarðverkfræðingur að lokum.