Hraunið skríður um 20 metra á klukkustund

Frá gosstöðvunum við Sundhnúkagíga í dag.
Frá gosstöðvunum við Sundhnúkagíga í dag. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segist halda í vonina um að hraunið nái ekki að Suðurstrandarveginum. Á þriðja tímanum var önnur hrauntungan í 350 metra fjarlægð frá veginum.

„Það er talað um að hraunið skríði fram um einhverja 20 metra á klukkustund og vonir standa til þess að Suðurstrandarvegurinn sleppi,“ segir Úlfar við mbl.is.

Nesvegurinn er eina færa leiðin í og úr Grindavík en hraun flæddi yfir Grindavíkurveginn í nótt og lögreglan lokaði Suðurstrandarveginum. Úlfar segir að Nesvegurinn sé í þokkalegu standi og það hjálpi til að veðuraðstæður séu ágætar og akstursskilyrðin sömuleiðis.

„Grindavíkurvegurinn fór undir hraun eins og í síðasta gosi og ef því lýkur fljótlega þá verða vonandi ekki fleiri skemmdir af innviðum,“ segir Úlfar.

Vart við mengun á svæðinu

Úlfar segir að vart hafi verið við mengun á gossvæðinu í dag og hann hvetur fólk til að hafa varann á hvað það varðar. Hann segir að um 20 viðbragðsaðilar hafi verið að störfum í og við Grindavík í dag. Lögreglustjórinn segir að þeir vinni í nánu samstarfi við samhæfingarstöðina í Skógarhlíð og Veðurstofu Íslands.

Úlfar segir að það hafi ekki komið sér neitt á óvart þegar gosið braust út við Sundhnúkagígaröðina í gærkvöld en Úlfar og hans menn ættu að vera orðnir öllu vanir enda er þetta sjöunda eldgosið á Reykjanesskaga á tæpum þremur árum.

„Ég held að flestir hafi verið undirbúnir fyrir eldgos en þetta var bara spurning um staðsetningu og í hvaða áttir hraunstraumurinn rynni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert