Katrín segir aðgerðirnar skila sér

Katrín segir að þó erfitt sé að horfa upp á …
Katrín segir að þó erfitt sé að horfa upp á enn eitt gosið þá séu aðgerðir að skila sér. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að á sama tíma og það sé erfitt að horfa upp á enn eitt gosið sé jákvætt að sjá að aðgerðir í tengslum við síðustu gos skili sér. Þrátt fyrir óvissu um þróun mála segir hún að brýnasta verkefni eins og staðan er núna sé að koma samgöngum í lag að gosi loknu. 

„Á sama tíma og manni finnst nú erfitt að horfa upp á enn eitt gosið og auðvitað erfiðast fyrir Grindvíkinga að horfa upp á enn annað gosið, þá er jákvætt líka að sjá hvernig þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í hafa verið að skila sér.“

Katrín nefnir í því samhengi uppbyggingu varnargarða, ferging lagna og tryggingu innviða.

Skjót viðbrögð en óvissa í loftinu

„Þetta er auðvitað ennþá í gangi, en maður vonar svo innilega að við komust í gegnum þetta án skaða á innviðum og eignum.“

„Samhæfingarmiðstöðin var virkjuð strax í gær með gríðarlega litlum fyrirvara og það er mikilvægt að nefna það að þrátt fyrir lítinn fyrirvara gekk mjög vel að rýma,“ segir Katrín og vísar meðal annars til rýmingar Bláa lónsins þar sem að um 700-800 gestir og starfsmenn þurftu að rýma svæðið.

Draga lærdóm af hverjum viðburði

„Við drögum að sjálfsögðu lærdóm af hverjum viðburði og hann er að skila sér í því að þetta hefur gengið mjög snurðulaust, en það er auðvitað erfitt að horfa á þetta og erfitt að horfa á þetta svona nærri bænum.“ segir hún

„Við vitum náttúrulega ekki alveg hvernig þetta mun þróast, en það hefur þegar dregið úr gosinu. Stóra verkefnið núna er að Grindavíkurvegur liggur undir hrauni að hluta og það rennur hraun í átt að Suðurstrandarveginum og þá er auðvitað komin upp sú staða að samgöngumál á svæðinu eru orðin mjög flókin.“

Helsta verkefnið að koma samgöngum í lag

„Þegar þessum viðburði lýkur ætti það ekki að taka nema nokkra daga að opna leiðirnar aftur,“ segir hún og bendir á að þau hafi einnig dregið lærdóm af síðasta gosi í þeim efnum þar sem að lagður var vegur yfir nýtt hraun á Grindavíkurvegi:

„Eins og ég segi það hafa verið miklir lærdómar dregnir af fyrri viðburðum og við finnum það í þessum. Öll vinna sem hefur verið lögð í undirbúning og kortlagningu er að skila sér, en eins og ég segir maður bara biður og vonar að allt gangi vel. Það er of snemmt að þakka fyrir neitt á meðan hraunið heldur áfram að streyma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert