„Næstu daga verður vetrarlegt veður á landinu og mun víða snjóa með hvössum vindi og aukinni snjóflóðahættu,“ segir í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.
Spár gera ráð fyrir langvarandi stórhríð á Vestfjörðum fram á þriðjudag með tilheyrandi uppsöfnun á snjó. Óvissustigi vegna snjóflóðahættu var lýst yfir þar í dag.
Í dag mun bæta enn frekar í vind og ofankomu á svæðinu en fyrir er dálítil lausamjöll ofan á eldri snjó. Appelsínugul viðvörun tekur gildi á miðnætti.
„Búast má við miklum skafrenningi á svæðinu og aukinni snjóflóðahættu víða, m.a. á vegum,“ segir í tilkynningunni.
Til að byrja með verður sennilega meiri ofankoma á norðanverðum Vestfjörðum en á mánudag og þriðjudag má búast við snjókomu á sunnanverðum Vestfjörðum líka.
Á Norðurlandi verður hvöss NA-átt með talsverðri snjókomu. Fyrir er lausamjöll ofan á eldri snjó, en snjógryfjur af svæðinu sýna miðlungsveikt lag í eldri snjónum á 30-40 cm dýpi.
„Búast má við miklum skafrenningi á svæðinu með aukinni snjóflóðahættu, m.a. á vegum,“ segir í tilkynningunni en það dregur úr vindi og úrkomu á mánudag á Norðurlandi.
Á Austurlandi snjóar í dag í austlægri átt, en rignir líklega á láglendi.
Vindur gæti farið yfir skafrenningsmörk á stöku stað um tíma.
„Fyrir er lagskiptur vindfleki til fjalla ofan á eldri snjó og sýnir snjógryfja að lítið álag þurfi til að skapa brot í snjóþekjunni,“ segir í tilkynningunni.
Á næstu dögum mun úrkoman koma í lotum yfir svæðið og líklega mun rigna upp í miðjar hlíðar á mánudag, sem gæti valdið votum spýjum.
Á Suðurlandi er víða snjór og á næstu dögum mun rigna með köflum víða á svæðinu.
Voð snjóflóð eða krapaspýjur gætu fallið í bröttum brekkum eða lækjarfarvegum.
„Vesturhluti landsins fær sinn skerf af úrkomu líka og þá einna helst Snæfellsnesið og jafnvel Borgarfjörðurinn. Þar verður ANA stórhríð með mikilli snjókomu á sunnudag,“ segir í tilkynningunni.
Á mánudag verður úrkoma með köflum, líklega rigning upp í miðjar hlíðar.