Leggja nýja vegi yfir hraunið

Frá gosstöðvunum í nótt.
Frá gosstöðvunum í nótt. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum ekki í neinum aðgerðum núna og við bíðum bara átekta. Það er ekki uppi nein áform um að fara í aðgerðir strax og við verðum bara að sjá hver framvindan verður sérstaklega með Suðurstrandarveginn.“

Þetta segir Bergþóra Kristinsdóttir, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, í samtali við mbl.is. Hún segir að það sé hætta á að hraun renni yfir Suðurstrandarveginn.

„Við erum aðeins komin með reynslu að fást við hraun sem hefur runnið yfir vegi og við teljum farsælla að láta hraunið renna yfir veginn og endurmóta þá bara nýjan veg,“ segir Bergþóra.

Fyrir klukkustund síðan voru ekki nema tæpir 500 metrar í að hrauntungurnar næðu að Suðurstrandarveginum en í nótt flæddi hraun yfir Grindavíkurveginn.

„Við komum til með að leggja nýjan veg yfir hraunið sem fór yfir hann í nótt en hvenær það verður gert er ekki hægt að segja til um. Það fer eftir því hvenær það hættir að bætast í strauminn og hversu hratt hraunið kólnar,“ segir Bergþóra.

Nesvegurinn eina færa leiðin til Grindavíkur

Hún segir að það verði ekki gert fyrr en öryggið er tryggt. Sem stendur er Nesvegurinn eina leiðin til að komast til Grindavíkur.

„Nesvegurinn hafði orðið fyrir skemmdum fyrr í vetur og vegurinn er ekki alveg í eins góðu standi og hann gæti verið í. Það hafa verið uppi áform í að fara í viðgerðir á veginum en hann er fær allri almennri umferð og það er engin hætta að aka hann. Það væri gott að hafa aðrar leiðir en Nesveginn og við erum í startholunum að ráðast í framkvæmdir. Nú er bara ákveðinn biðtími og ekkert sem við getum gert í augnablikinu,“ segir Bergþóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert